Fara í efni
KA

Brons á HM – besti árangur frá upphafi

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí með bronsverðlaunin í mótslok. Myndin er fengin af Facebook-síðu Íshokkísambandsins.

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí mátti sætta sig við bronsverðlaun í 2. deild A á HM sem lauk í Bytom í Póllandi í gærkvöld eftir að Spánverjar unnu gestgjafa Pólverja í lokaleik mótsins. Fyrir lokaleik mótsins átti íslenska liðið möguleika á silfurverðlaunum. Eina tap sigurliðs Spánverja kom í fyrsta leik mótsins gegn Íslandi.

Þetta er engu að síður besti árangur kvennalandsliðsins frá upphafi, eða á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að landsliðið tók fyrst þátt í alþjóðlegri keppni. Heimsmeistaramótinu er deildaskipt, 16 lið í efstu deild, 12 lið samtals í 1. deild A og B og 12 lið samtals í 2. deild A og B. Ekki eru mörg ár síðan íslenska liðið komst upp í 2. deild A og er því að keppa í sterkustu deild sem íslenskt kvennalandslið hefur spilað.

Íslenska liðið vann lið Tævan í lokaleik sínum í gær, 1-0. Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum, eins og sést best á því að skot íslenska liðsins á markið voru samtals 40 á móti tíu skotum tævanska liðsins. Markvörður Tævan var íslenska liðinu erfiður ljár í þúfu, en Kolbrún María Garðarsdóttir skoraði eina mark leiksins eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu Björnsdóttur. 

Það var hins vegar einnig beðið eftir lokaleik mótsins, viðureign Pólverja og Spánverja, til að vita hvort verðlaunapeningurinn yrði brons eða silfur. Ef Pólverjar hefðu unnið lokaleikinn hefði íslenska liðið hlotið silfurverðlaunin. Pólska liðið hafði unnið alla leiki sína til þessa á mótinu, en Spánverjar höfðu tapað fyrir því íslenska eftir framlengingu og vítakeppni.

Því miður urðu vonir um silfrið að engu því Spánverjar unnu Pólverja, 4-2, og skutust í efsta sætið með 13 stig. Pólland endaði með 12 stig og Ísland 11. Eini tapleikur íslenska liðsins var gegn því pólska. 

Sunna Björgvinsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir íslenska liðið á mótinu og var jöfn nokkrum öðrum í 6.-11. sæti á markalistanum. Silvía Rán Björgvinsdóttir úr SA átti flestar stoðsendingar í íslenska liðinu, þrjár, og var jöfn nokkrum öðrum leikmönnum í 7.-13. sæti á stoðsendingalistanum. Samanlagt var Sunna Björgvinsdóttir efst í íslenska liðinu með þrjú mörk og tvær stoðsendingar og í 8.-10. sæti á þeim lista.

Akureyringar áttu marga fulltrúa í íslenska liðinu á mótinu, akureyri.net fjallaði um í gær.