Fara í efni
Jóladagatalið 2023

Vilhjálmur B. Bragason leikari og leikskáld

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

20. desember – Vilhjálmur B. Bragason, leikari og leikskáld

Jólin í samkomuhúsinu

Fyrir jólin 1999 setti Leikfélag Akureyrar upp jólagamanleikinn Blessuð Jólin eftir Arnmund Backmann. Þetta var létt og skemmtileg sýning um dæmigerð jól íslenskrar fjölskyldu, sýning sem fann bæði fyndni og fegurð í stressinu, meðvirkninni og misskemmtilegum ættingjum og nágrönnum. Svo hafði sveiflukóngurinn Geirmundur meira að segja samið titillag sýningarinnar sem sungið var í lokin, slíkt var stuðið. Ég var 11 ára gamall á þessum tíma og þetta var í annað sinn sem ég starfaði sem leikari í atvinnuleikhúsi, enda gerði öll þessi reynsla og sá dásamlegi hópur sem að uppfærslunni starfaði mig ennþá staðráðnari í því að á leiksviðinu og í leikhúsinu myndi lífsleið mín liggja.

Af þessu yndislega samstarfsfólki og vinum þekkti ég nokkra fyrir úr fyrstu uppfærslu minni hjá LA, Söngvaseið, en þar hafði ég unnið með Þráni Karlssyni, Alla Bergdal, Sögu Jóns og kynnst Sunnu Borg. Í Blessuð jólin kynnist ég hinsvegar Maríu Pálsdóttur, Arndísi Hrönn, Tóta, Dundu og, manni sem ég hafði alist upp við að hlusta á sem Lilla klifurmús, Árna Tryggvasyni.

En svo lauk sýningunni og fólk varð að koma sér heim í gegnum storminn. Það varð úr að Árni myndi keyra mig heim.

Eitt sýningarkvöldið rétt fyrir jól gerir þetta líka aftakaveður meðan á sýningu stendur, stórhríð og stormur. Á fáum stöðum er eins notalegt að vera þegar þannig viðrar og í Samkomuhúsinu. En svo lauk sýningunni og fólk varð að koma sér heim í gegnum storminn. Það varð úr að Árni myndi keyra mig heim. Við setjumst út í bílinn og skyggnið er sama og ekkert. Þó að barnið ég hafi ekki haft neitt vit á að keyra bíl þá var ég nógu áhyggjufullur að eðlisfari til að átta mig á að þetta væru ekki kjöraðstæður. Ég hef það á orði við Árna að þetta sé nú eiginlega mannskaðaveður! „Við deyjum þá allavega tveir,“ svaraði Árni og brosti sposkur. Svo hlógum við báðir dátt – mér stóð samt ekki á sama. Ég komst heill heim, en oft hef ég hugsað um þetta svar og hvernig það fangar í raun hinn sanna jólaanda. Snúast ekki jólin annars um að deila?