Fara í efni
Jóladagatalið 2023

Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

21. desember – Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld

Jólaminning Hlölla

Lítil saga um útburð jólakorta sem fór í steik!

Það var til siðs á mínum bæ á Akureyri að gera jólakort og bera sjálf til vina í bænum, sem eitt af síðustu verkum fyrir jólin. Ég er viss um að þetta tiltæki var ekki til fjárhagslegs sparnaðar, þegar bæði tími fyrirhafnar, bensínkostnaðar og nokkurrar áhættu er bætt við, eins og eftirfarandi saga sýnir:

Komið var fram á aðfangadag og ilmurinn úr eldhúsinu byrjaður að dekra við nefið. Enn höfðu heimagerðu kortin ekki verið borin vinum og vandamönnum. Þrátt fyrir norðanstrekking og skafrenning voru systkinin klædd til útburðar. Systurnar tvær voru komnar á ágætis pósthlaupaaldur en bróðirinn var nokkuð yngri.

Lödunni var ekið hraðar, stúlkurnar hlupu hraðar og litli bróðir var orðinn ákafari.

Billinn var ekki sérlega hraðfær af Lödugerð, en faðirinn, Hlölli, taldi sig færan í flestan sjó. Útkeyrsla fór fram eftir gamalreyndri aðferð. Fyrst tókum við Glerárhverfið, svo Eyrina, þá Innbæinn og síðast Brekkuna. Þar sem liðið var óvenju seint á ferðinni hófst fljótlega keppni við innhringingu jólanna. Lödunni var ekið hraðar, stúlkurnar hlupu hraðar og litli bróðir var orðinn ákafari. Lokaáfanginn var Brekkan og dálítið langt á milli áfangastaða.

Engir farsímar fundnir upp, engin bensínstöð opin og eina bjargráðið að banka uppá í nálægu húsi og fá að hringja á björgunarlið.

Sunnarlega á Mýrarvegi byrjar Ladan að hökta. Síðustu bensíndroparnir voru uppþornaðir. Þarna sat litla fjölskyldan mömmulaus í köldum bílnum og jólin að bresta á. Grátur barnanna hljómaði í andstöðu við innhringingu jólanna í kirkjuklukkunum. Engir farsímar fundnir upp, engin bensínstöð opin og eina bjargráðið að banka uppá í nálægu húsi og fá að hringja á björgunarlið. Grátur barnanna hækkaði við það að pabbinn yfirgæfi þau á leiðinni í símann.

Hringt var dyrabjöllu og prúðbúin kona sá aumur á kalli og féllst á að lána símann. Lúlli bróðir Hlölla svaraði kallinu og yfirgaf prúðbúinn fjölskyldu og jólasteikina, til þess að aka þessari veglausu fjölskyldu heim. Við heimkomu hvarf gráturinn og mikil gleði braust út hjá móðurinni, sem hafði enga hugmynd um hvað olli þessum töfum. Það var henni mikill léttir að geta drifið ungana sína í jólafötin undir hljóðfalli útvarpsguðþjónustunnar.

Öllum varð hlýtt nema Lödugreyinu, sem mátti bíða ísköld til þriðja jóladags eftir bensíndropa. Svona atvik verður öllum þáttakendum dýrmæt minning, sem aldrei gleymist.