Fara í efni
Jóladagatalið 2023

Eyrún Lilja Aradóttir aðstoðarleikstjóri

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

16. desember – Eyrún Lilja Aradóttir, aðstoðarleikstjóri hjá Warner Bros. í London og Ungskáld Akureyrar 2023

Jólagjöfin frá kisu

Árið var 2009. Ég var átta ára. Ég man eftir spenningnum sem myndaðist í maganum kvöldið fyrir aðfangadagskvöld. Ég hélt að ég myndi aldrei ná að sofna. Tilhlökkun að keyra út jólakortum um allan bæ og óska öllum gleðilegra jóla. Pakkarnir sem störðu á mann undir jólatrénu og ímyndunaraflið fór á flug um hvað væri undir öllum þessum jólapappír. Engin okkar vissi þá að aðal jólagjöfin þetta árið leyndist undir fótum okkar.

Ég og bróðir minn stukkum niður til að ná í boltann, en þá blasti við sýn sem enn í dag stendur eftir sem eftirminnilegasta minning mín frá jólum.

Það var komin aðfangadagur. Við vorum búin að borða á okkur gat og opna alla jólapakkana. Litli bróðir minn fékk lítið körfuboltaspjald og körfubolta í jólagjöf. Við fórum fram í bílskúr og byrjuðum að leika okkur með nýja dótið saman. Í bílskúrnum var op niður í skriðkjallara sem lá undir öllu húsinu. Eitt skipti, í hita körfuboltaleiksins, skaust boltinn niður í kjallarann. Ég og bróðir minn stukkum niður til að ná í boltann, en þá blasti við sýn sem enn í dag stendur eftir sem eftirminnilegasta minning mín frá jólum.

,,MAMMA OG PABBI! Það eru kettlingar í kjallaranum! Það eru kettlingar í kjallaranum!’’

Kettlingar! Það voru tveir kettlingar sem mjálmaðu og litu upp til okkar frá kjallaranum. Annar var svartur og hinn var gulur eins og frægi kötturinn Grettir. Ég og bróðir minn trúðum ekki okkar eigin augum. Við áttum eina læðu en engin hafði hugmynd um að hún hefði verið kettlingafull og hún hafði greinilega ekki ætlað að segja neinum frá því heldur falið þá í kjallaranum. Við hlupum fram í stofu og æptum af spenningi. ,,MAMMA OG PABBI! Það eru kettlingar í kjallaranum! Það eru kettlingar í kjallaranum!’’ Mamma og pabbi, sem voru bera eftirréttinn á borð hlógu að okkur og trúðu okkur ekki hið minnsta.

Við snérumst strax á hæl og sóttum kettlingana. Ég tók einn og bróðir minn annan. Þessir kettlingar voru ekki nýgotnir, heldur voru þeir nokkra vikna. Mamma og pabbi vissu ekki hvað þau áttu að segja þegar við sýndum þeim nýju, óvæntu fjölskyldumeðlimina.

Þessi jól fengum við bestu jólagjöfina frá engum öðrum en kisunni okkar!