Fara í efni
Jóladagatalið 2023

María Pálsdóttir leikkona

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

9. desember – María Pálsdóttir, leikkona

Sérstök helgitilfinning í fjósinu

Það var hollt og gott að alast upp á kúabúi. Ég lærði snemma að taka til hendinni og held ég hafi byrjað að fara með pabba í fjós að gefa kálfunum áður en ég hóf skólagöngu. Við Valdís systir vorum saman í þessu fyrst um sinn en fórum svo að skiptast á. Þegar tognaði úr manni bættist spenaþvottur, mjaltavélaþvottur, flórmokstur, fóðurgangssóp og heygjöf við mjólkurgjöf kálfanna. Og ég held mér sé óhætt að játa það nú að ég var kannski ekki alltaf í stuði til að fara í fjós. En maður lét sig hafa það og ég man ekki til þess að ég hafi möglað mikið... en mögulega er minni mitt valkvætt?

Það var alltaf sérstök tilfinning að fara í fjósið með pabba á aðfangadagskvöld. Smá svona píslarvottatilfinning í upphafi: aumingja ég að þurfa að fara í fjósið á aðfangadagskvöld jóla! En þegar út í fjós var komið fylltist ég alltaf einhverri sérstakri helgitilfinningu. Messan í útvarpinu kom manni í hátíðarskap; það skyldi verða extra vel sópaður fóðurgangurinn í kvöld, kálfarnir fengu kannski eitt eða tvö jólalög sungin yfir mjólkurfötunum, spenaþvotturinn varð einstaklega mjúklegur og vandaður og heygjöfin betur útilátin en önnur kvöld. Það var alltaf eins og hjartað tútnaði aðeins út og maður skynjaði á einhvern óútskýranleg hátt helgi jólanna innan um kýrnar og kálfana. Það var eitthvað magískt við kyrrðina sem sveif yfir jórtrandi skepnunum þegar við vorum að slökkva ljósin og klára fjósið. Gott ef maður óskaði þeim ekki gleðilegra jóla áður en maður lokaði á eftir sér.

Svo kom maður heim og átti eftir að fara í sturtu og dubba sig upp í jólafötin en mamma og systurnar allar tilbúnar og bara verið að leggja lokahönd á sósuna. Það var ógurlega notalegt að setjast til borðs og vera búin að gera gagn og gera vel við dýrin og vita af þeim söddum og sælum í fjósinu og ekki var verra að vita það að sú sem fór í fjós á aðfangadagskvöld þurfti ekki að fara í fjós á jóladagsmorgun!