Fara í efni
Jóhann Árelíuz

Víti til varnaðar

EYRARPÚKINN - 4

Mömmu fannst skrýtið hvað mér fór aftur í lestri og var ég orðfár um veruna hjá Hreiðari og málaði ekki námið eins björtum litum og skreyttu bókarkápu meistaraverksins Litli læknissonurinn.

Þar stendur bláklæddur maður á hvítri skyrtu með rauða slaufu og gráan hatt í hendi en skórnir gljáandi og bendir með vísifingri á litla læknissoninn sem stendur niðurlútur með pensil og málningarfötu og hefur atað út hárið, nefið og peysuna.

Þá bók gat ég ekki litið réttu auga frekar en Snjalla snáða og Bjalla hringir og alltaf leið mér í brjóst þegar Jenna las fyrir okkur úr Öddubókunum blíð á manninn.

Fannst mér skólastjóri sverma fyrir krökkum betra fólks af Brekkunni á meðan Eyrarpúki með skítugar neglur átti sér ekki viðreisnar von.

Náði kennslan hámarki þegar Hreiðar teiknaði hús á töfluna og var Hreiðarsskóli í fegraðri mynd og kominn kjallari undir.

Í risinu bjuggu Jóhanna og Barbara með tæp tvöhundruð atkvæði og fengu koss á kinnar.

Svo voru einhverjir Brekkusniglar á hæðunum en í kolakompu kjallarans hímdi ég einn með sextíuogfjögur atkvæði og kallaði Hreiðar það víti til varnaðar.

Ég dró stóran apótekara úr pússi mínu og hlakkaði til að komast í bolta að skóla loknum.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Víti til varnaðar kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Í Hreiðarsskóla

Jóhann Árelíuz skrifar
01. september 2024 | kl. 09:30

Stelpustrákur

Jóhann Árelíuz skrifar
28. ágúst 2024 | kl. 18:30