Sláturtíð

EYRARPÚKINN - 10
Það voru tekin sextán slátur og borin neðan af Tanga og lá við að maður ældi hjá gærum og innyflum sem úldnuðu á sláturhúsplaninu.
Náðum við í horn og lappir og bjuggum vopnfirskum myndarbúum fyrir neðan Hríseyjargötu 20. Spratt vel þar og skjól fyrir skepnurnar. Kýr á beit, fé á fjalli. Slegið og hirt að kvöldi. Og riðum héruð bændur að leita uppi kálfa og heimalninga.
Hausar sviðnir hjá Birni Kristinssyni á Odda við hvíta loga smiðjunnar og tendruðu glæðurnar galdur svartra kvölda.
Pabbi sveið lappir á lóðinni og var einn um að éta þær eftir að ég komst á legg.
Það er rafmagnslaust með frostrósum á glugga þegar pabbi þrælar í mig löppum undir steinolíulampa á eldhúsborðinu sem hallast á alla kanta.
Allt étið af lambinu í Eyrarvegi 35 nema dindillinn og þótti hollt.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Sláturtíð er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.


Bílnum stolið

Kári og Skúli

Hádegislúrinn

0-1
