Hangið aftan í

EYRARPÚKINN - 14
Þegar bílstjórinn elti mig niður Eyrarveginn vætti ég buxurnar og æpti Mamma mamma!
Steini Villa og Rúni Jóhanns hlógu en stóðu mér ekki á sporði þegar ég skutlaði mér á vængjabíl Guðmundar Karls og hékk í suðrað Turni þó doksi æki Norðurgötuna sikksakk.
Gómuðu fáir A 100 þegar yfirlæknirinn spýtti í á Norðurgötuhorni. Þarna kemur Guðmundur Karl á hundrað, teikum hann strákar!
Og fylgdu marblettir á mjöðmum og hnjám og ótal skrámur leik okkar.
Þarna kemur kolabíllinn! hrópuðum við þegar kolabíllinn kom másandi af Tanganum og mátti fara í langferðir á poka á palli og nutum hvíldar og útsýnis.
Þá voru olíubílarnir vinsælir með stuðarana svo hátt uppi að hanga mátti aftan í þeim standandi en víða stóð grjót úr götum og margt bar að varast auk bráðra ökumanna, ekki síst í Gilinu í hálku með bíla í bak.
Þá vildu vettlingar festast við stuðarana og voru Stebbi Rut og Keli seinheppnir með glófa sína þrátt fyrir hlaup upp alla Tryggvabraut.
Stebbi í Eyrarvegi 16 hnyklaði brýrnar og útmálaði hvurnin hann tæki í rassgatið á okkur sem við smugum kattarlegir kringum gráan Ópel Stefáns sem við kölluðum Stebba á 80.
Best að hanga aftan í á gúmmískóm Iðunnar, svörtu slöngugúmmurunum, því á útlensku skónum urðu hvítir sólarnir svartir þegar menn báru saman brennda botna sína.
En það létum við ekki á okkur fá á Norðurgötuhorninu í veiðilegri stórhríð jólalegri.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Hangið aftan í er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.


Bílnum stolið

Kári og Skúli

Hádegislúrinn

0-1
