Fyrsta mark Maríu í sænsku úrvalsdeildinni
María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði sitt fyrsta mark fyrir sænska úrvalsdeildarliðið Linköping um liðna helgi. María skoraði þriðja markið í 4-0 sigri á Trelleborg.
Linköping er í 8. sæti OBOS Damallsvenskan, sænsku úrvalsdeildarinnar, með 25 stig að loknum 20 umferðum. Fjórtán lið eru í deildinni og er sex umferðum ólokið. María gekk til liðs við sænska félagið í júlí og hefur spilað fimm leiki. Þetta var hennar fyrsta mark í deildinni, en hún hefur að auki átt eina stoðsendingu. Meðal liðsfélaga Maríu er hin ástralska Angela Beard, sem spilaði 11 leiki fyrir KR sumarið 2020, og Delaney Baie Pridham, sem spilaði 13 leiki fyrir ÍBV 2021.
María skoraði tvö mörk í leik með Linköping gegn austurríska félaginu First Vienna þegar liðin mættust í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu fyrr í mánuðinum. Linköping komst þó ekki áfram, en liðið vann leik um 3. sætið í sínum riðli gegn First Vienna 8-0.
Myndband með helstu atvikum leiksins má finna á vef deildarinnar - sjá hér.
Mark Maríu fyrir Linköping um helgina má sjá í spilaranum hér að neðan: