Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Lið Þórs/KA og KA leika bæði í Reykjavík

Sandra María Jessen er lang markahæst allra í Bestu deild kvenna með 22 mörk í sumar - Mikael Breki Þórðarson fagnar fyrsta marki sínu fyrir meistaraflokk KA, gegn HK um síðustu helgi. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs/KA og karlalið KA verða bæði í eldlínunni í Reykjavík í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. 

  • 14.00 – Þróttur - Þór/KA

Þór/KA er í þriðja sæti eftir hluta deildarinnar með 33 stig, jafn mörg og Víkingar og berjast þau tvö um það sæti. Breiðablik og Valur eru lang efst og löngu ljóst að baráttan um Íslandsmeistaratitilinn yrði á milli þeirra.

Lið Þórs/KA getur með sigri í dag styrkt stöðu sína þó að sigur dugi ekki til að tryggja þriðja sætið endanlega en Stelpurnar okkar kæmu sér óneitanlega í góðu stöðu. Víkingur tapaði fyrir Val í gær og í lokaumferðinni um næstu helgi vill svo skemmtilega til að Þór/KA fær Víking í heimsókn.

17.00 – Fylkir - KA

Nýkrýndir bikarmeistarar KA eru í öðru sæti í keppni sex neðri liðanna með 28 stig, tveimur á eftir Fram. Fylkismenn eru hins vegar neðstir og hver leikur því upp á líf og dauða fyrir þá í baráttunni um að halda sér í deildinni. Þegar fjórir leikir eru eftir er Fylkir með 17 stig, Vestri 19, HK 21 og KR 22. Tvö neðstu liðin falla.