Fara í efni
Hrund Hlöðversdóttir

Hver er þín fyrirmynd?

MENNSKAN - 3

Öll eigum við okkur fyrirmyndir en það er ekki endilega víst að við gerum okkur grein fyrir því hverjar þær eru.

Börn og unglingar fá oft að heyra að þau eigi að vera fyrirmyndir yngri barna. Þetta er algengur frasi innan skólanna og í fjölskyldum. „En ef ég vil ekki vera fyrirmynd?“ Spurði nemandi mig þegar ég tók þessa umræðu í eitt skipti. Hverju svarar maður þá? Er hægt að velja að vera ekki fyrirmynd. Getum við sagt? „Finndu þér bara aðra fyrirmynd af því að mig langar ekki til að vera fyrirmyndin þín.“ Nei, það er víst ekki svo …

Þegar ég var átta ára gömul var Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem kosin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum. Ég man mjög vel eftir þeim kosningum. Eiginlega eru þetta þær forsetakosningar sem ég man hvað best eftir sem er skemmtilegt. Ég man meira að segja nöfn frambjóðenda sem er svolítið furðulegt en kemur til af því að ég lærði lag sem flutt var í sjónvarpinu fyrir kosningarnar og söng það á meðan ég rólaði mér á róluvellinum. Albert er góður og Guðlaugur hress, Pétur er kosinn til þess, en Vigdísi allir þrá, ó, já, Við ætlum að kjósa’ okkur forseta, kjósa, kjósa …

Ég held að fyrir stelpuna mig hafi það skipt máli að hafa alist upp með konu í forsetastóli og með margar fleiri sterkar og sjálfstæðar kvenfyrirmyndir í kringum mig. Ég trúði því að konur gætu gert allt sem þær langaði til að gera.

Það var ekki fyrr en seinna að ég gerði mér grein fyrir því að jafnrétti væri ekki algjört. Að það væri ekki fullkomið jafnrétti kynja á Íslandi og í mörgum samfélögum væri alls ekkert jafnrétti til staðar. En ég hafði samt sem áður þá trú að þessi skortur á jafnrétti væri tilkomin vegna þekkingarleysis og þegar fram liðu stundir yrði komið á jafnrétti allra kynja og þess væri hreint ekki langt að bíða. En því miður er það ekki staðreyndin í dag og ég er ansi hrædd um að heimur versnandi fari í þessum málum. Síðustu árin hafa minnihlutahópar og konur í mörgum ríkjum verið að missa réttindi sín og afturhvarfið er sums staðar svo óskaplegt að ég þori varla að leiða hugann að því. Fyrir nokkru kom frétt um að konur í Afganistan væru enn og aftur að missa nánast öll réttindi og þar fá stúlkur ekki að ganga í skóla og mennta sig.

Á Íslandi hafa öll kyn jafnan rétt til náms. Það má svo sem velta upp mörgum hliðum þessarar fullyrðingar í samhengi við félagslega stöðu og mismunandi bakgrunn en svona í stóru myndinni fá allir sömu tækifæri. Eitt af því sem ég hef í vaxandi mæli áhyggjur af er afsláttur sem fólk og þá sérstaklega ungar konur vilja fá í lífinu. Mér finnst allt of margir vilja fá mikið fyrir lítið. „Hvert ertu nú að fara?“ gæti lesandinn verið að hugsa og ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér með þessum fullyrðingum en ég hef áhyggjur af jafnrétti kynjanna í þessu samhengi. Það er mín tilfinning að sumt ungt fólk og þá líka ungar konur hugsi ekki um heildarmyndina þegar kemur að því að taka ákvörðun um nám og störf. Það getur hentað ágætlega í einhvern tíma að vinna stuttan vinnudag og vera í hentugri dagvinnu sem krefst ekki mikils af þér. En fyrst og síðast þarf að spyrja sig hvað mann langar til að gera við líf sitt og hvernig best sé að hlúa að sjálfstæði sínu og persónulegum þroska.

Ég hef alltaf reynt að halda mínu sjálfstæðisflaggi á lofti. Reyndar segja foreldrar mínir að meðal fyrstu orðanna sem ég sagði hafi verið „ég sjálf“. Ég valdi mér nám sem mig langaði að stunda, valdi að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og ég hef hlúð að þeim áhugamálum sem hafa heillað mig. Ég hef í gegnum árin ögrað sjálfri mér, stigið út fyrir þægindarammann, prófað nýja hluti og tekist á við áskoranir. Á þennan hátt þroskast persónuleikinn, mótar mann og slípir. Að vera sjálfstæður einstaklingur og geta hvenær sem er staðið með sjálfum sér og spjarað sig er eiginleiki sem vert er að sækjast eftir. Eins og það er yndislegt að eiga einhverja sem standa með manni í lífinu og veita manni ást og félagsskap má ekki gleyma sínu eigin sjálfstæði og enginn veit hvenær sá tími kemur sem reynir á mann sem einstakling.

Það er ekki hægt að afsala sér því að vera fyrirmynd. Enginn spyr þig hvort þú viljir vera fyrirmynd einhvers annars, vina, barna eða vinnufélaga. Síðan er það annarra að dæma hver sé góð fyrirmynd og hver sé það ekki. Það þurfa að vera til sjálfstæðar, heilbrigðar og sterkar fyrirmyndir fyrir öll kyn og alla aldurshópa.

Nú er kvenforseti við völd á ný, Halla Tómasdóttir mun án ef vera góð fyrirmynd stelpna, stráka og stálpa næstu árin og láta margt gott af sér leiða. Mögulega munu einhver átta ára börn muna skýrt eftir þessum kosningum eftir rúm fjörtíu ár þó ég efist um að mörg þeirra geti þulið upp nöfn frambjóðendanna tólf.

Alla ævi er mikilvægt að rækta sjálfan sig og það er aldrei of seint að byrja að huga að því. Maður þarf að geta staðið með sjálfum sér sem sjálfstæður einstaklingur, þroska þá eiginleika og hlúa að þeim.

Hver er þín fyrirmynd?

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Undur lífsins

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
25. október 2024 | kl. 08:45

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00

Hamingjan í hreyfingunni

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
27. september 2024 | kl. 06:00