Hollvinir 10 ára og halda veislu í Lystigarðinum
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) fagna 10 ára afmæli sínu á þessu ári. Af því tilefni blása Hollvinir SAk til garðveislu í Lystigarðinum á Akureyri á föstudaginn kemur, 23. júní, frá kl. 16.00 til 18.00.
„Við ætlum að eiga ánægjulega stund með sem flestum Hollvinum SAk og öðrum sem vilja koma og gleðjast með okkur,“ segir Hermann Haraldsson, stjórnarmaður í samtökunum í tilkynningu.
Freyr Gauti Sigmundsson segir frá hryggsjá, sem Hollvinasamtök SAk afhentu stofnuninni nýverið með formlegum hætti. Hryggsjáin er eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni og er stærsta gjöf Hollvina til þessa, kostaði 40 milljónir króna. Freyr Gauti er yfirlæknir bæklunardeildar Háskólasjúkrahússins í Örebro í Svíþjóð, en kemur reglulega til gamla heimabæjarins og gerir flóknar bakaðgerðir með Bjarka Karlssyni, yfirlækni á SAk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Tæplega 2.600 hollvinir
Hollvinir SAk eru nú tæplega 2.600 talsins og Hermann segir að stefnan sé að fjölga þeim verulega. „Það væri frábært að ná því markmiði á afmælisárinu að þeir yrðu 3.000, því árlegt framlag hollvinanna sjálfra, 6.000 krónur, er bakbeinið í starfseminni. „Svo lyfta fyrirtæki, félög og félagasamtök á Eyjafjarðarsvæðinu Grettistaki fyrir okkar hönd á hverju einasta ári og gera Hollvinum SAk kleift að láta gott af sér leiða.“
Hermann segir að boðið verði upp á grillaðar pylsur og hollan drykk með í Lystigarðinum á föstudaginn, létt tónlist verði leikin og svo verði hoppukastali fyrir börnin. „Við erum búin að panta gott veður og fengum góðar undirtektir við þeirri ósk. Svo vonum við bara að við sjáum sem flesta,“ segir hann.
Get ég ekki gert eitthvað fyrir ykkur?
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri voru formlega stofnuð á afmælishátíð stofnunarinnar fimmtudaginn 12. desember árið 2013. Þá höfðu um 200 manns gengið í samtökin og fram kom að fyrsta verkefnið yrði að færa sjúkrahúsinu tugi rafstýrðra sjúkrarúma að gjöf.
Sá sem þetta skrifar greindi frá stofnuninni í Morgunblaðinu laugardaginn 14. desember og sagði meðal annars: „Sextíu ár eru á morgun frá því starfsemi sjúkrahússins var flutt í núverandi húsakynni á Eyrarlandsholti og því var einnig fagnað á fimmtudag að 140 ár eru liðin frá því starfsemi fyrsta sjúkrahússins á Akureyri hófst, árið 1873.“
Fulltrúar Hollvinasamtakanna komu færandi einu sinni sem oftar í desember árið 2015. Frá vinstri: Bernard Gerritsma, forstöðuhjúkrunarfræðingur á geðdeild, Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar, Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflæknigasviðs, Bjarni Jónasson forstjóri, Jóhannes Gunnar Bjarnason formaður Hollvinasamtaka Sjúkrahússins, Stefán Gunnlaugsson, stofnandi samtakanna og Hermann Haraldsson, stjórnarmaður í samtökunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Í frásögn af afmælishátíð sjúkrahússins sagði einnig í Morgunblaðinu:
- Bjarni Jónasson, forstjóri FSA, sagði að árum saman hefði verið rætt um að koma á fót hollvinasamtökum sem stutt gætu við starfsemi sjúkrahússins og eflt þá þjónustu sem þar fer fram. Stofnun samtakanna nú væri því mikilvægur stuðningur starfsmönnum FSA og undirstrikaði þann hlýhug sem samfélagið sýnir starfseminni.
- Einn þeirra sem unnið hafa ötullega að stofnun hollvinasamtakanna, Stefán Gunnlaugsson, rakti aðdragandann að því og aðkomu sína að verkefninu. Hann hefði þurft að dvelja í nokkra mánuði á lyflækningadeild vegna erfiðra veikinda og að því loknu gengið á fund Bjarna forstjóra og sagst telja sig í stórri skuld við sjúkrahúsið. „Get ég ekki gert eitthvað fyrir ykkur?“ spurði Stefán og Bjarni nefndi þá þann langþráða draum að stofnuð yrðu hollvinasamtök sjúkrahússins. Stefán gekk í málið, ásamt Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, Jóni Birgi Guðmundssyni og Bjarna forstjóra.