Fara í efni
Hjólreiðar

„Sigruðu í ljósi eigin væntinga“

Kristín Edda Sveinsdóttir (HFR), Hafdís Sigurðardóttir (HFA) og Silja Jóhannesdóttir (HFA). Myndin er af vef Hjólreiðasambands Íslands.

Akureyringarnir Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir náðu ekki að klára keppni í elite-flokki í götuhjólreiðum á lokadegi Heimsmeistaramótsins í hjólreiðum sem fram fer í Skotlandi, en sigruðu þó í ljósi eigin væntinga, eins og það er orðað á vef Hjólreiðasambands Íslands.

Alls hófu 206 konur keppni í morgun. Þær Hafdís og Silja kepptu einnig í liðakeppni ásamt Kristínu Eddu Sveinsdóttur úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Þar var að mörgu leyti við ofurefli að etja þegar kemur að fjölda og styrk hjólara frá mörgum löndum, ásamt umgjörð og stuðningi.

Silja varð fyrir því óláni þegar hún hafði farið um þriðjung leiðarinnar að lenda í árekstri og þurfti að hætta keppni. Hafdís og Kristín Edda héldu dampi þar til komið var inn í borgina, en náðu ekki tímamörkum og fengu því ekki að klára keppnina. Á heimasíðu Hjólreiðasambands Íslands er sagt að þær séu engu að síður ánægðar með eigin frammistöðu „og báru sigur úr býtum í ljósi eigin væntinga,“ eins og þar stendur. 


Hjólað í sveitinni. Keppnin hófst við Loch Lomond þaðan sem hjólað var í stórum boga áleiðis inní Glasgow-borg. Myndin er af Twitter-síðu mótsins.

Brautin sem hjóluð var í dag var samtals rúmir 154 kílómetrar, þar af 90 kílómetrar þar sem sami 15 kílómetra hringurinn innan Glasgow-borgar var hjólaður sex sinnum. Reglulega er fækkað í hópnum og detta keppendur út ef munurinn á þeim og fremstu keppendum er orðinn ákveðið mikill. Þau urðu því miður örlög þeirra Hafdísar og Kristínar Eddu í dag eins og áður sagði. Af 207 keppendum náðu 86 að ljúka keppni án þess að lenda í niðurskurðinum.


Rauði punkturinn á stærri myndinni sýnir upphafsstaðinn við Loch Lomond, þaðan sem hjólað er í stóran boga í norðaustur, austur og svo suður í átt að Glasgow-borg. Af rúmum 154 kílómetrum eru um 60 km utan borgarinnar (blái hluti leiðarinnar) og síðan sex 15 km hringir inni í borginni (rauði hlutinn). Innfellda myndin er skjáskot af vef mótsins. Ef smellt er á myndina opnast síðan þar sem myndin og ítarlegri upplýsingar um mótið er að finna.

Keppinautar íslensku kvennanna eru margar hverjar atvinnukonur í hjólreiðum og keppa mjög regluleg á stórmótum. Í samtali við Akureyri.net í liðinni viku sagði Hafdís um þátttöku í svona mótum: „Mitt draumamarkmið á keppnisferlinum er að ná að klára stórmót, það er risamarkmið. En þá þarf allt að spilast mér í hag og ég að ná mínu allra besta.“