Fara í efni
Grunnskólar

Skapandi greinar allar undir hatti Loga

Logi fær lyklavöldin; Logi Einarsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í dag. Mynd af vef Stjórnarráðsins.

Logi Einarsson tók í dag við lyklum að nýju menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneyti úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. „Ráðuneytið hvílir á grunni háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins og málaflokkum sem áður heyrðu undir menningar- og viðskiptaráðuneytið,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í dag.

  • Málefni menningar og fjölmiðla færast til ráðuneytisins frá menningar- og viðskiptaráðuneyti
  • Málefni iðnaðar færast til nýs atvinnuvegaráðuneytis
  • Fjarskipti, sem áður heyrðu undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, færast til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

„Þessi samsetning ráðuneytisins felur í sér mikla samlegð málaflokka sem munu skipta sköpum fyrir áframhaldandi vöxt hugvitsins í íslensku samfélagi. Með því að setja skapandi greinar undir einn hatt mun okkur takast að stuðla að aukinni verðmætasköpun á Íslandi, samfélaginu öllu til heilla,“ segir Logi Einarsson, nýr menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra.

Logi er fæddur á Akureyri 21. ágúst 1964. Hann hefur verið þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi síðan 2016, var formaður flokksins 2016 til 2022 en hefur verið formaður þingflokksins síðan þá. Logi er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk prófi í arkitektúr frá Arkitekthøgskolen í Ósló árið 1992. Áður en Logi tók sæti á Alþingi starfaði hann sem arkitekt auk þess að vera bæjarfulltrúi á Akureyri á árunum 2012 til 2016.

Áslaug Arna, sem gegnt hafði embætti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá árinu 2021, segir Loga taka við góðu búi.

„Þetta ráðuneyti er gríðarlega kraftmikið og aðstoðaði mig við að hrinda stórum breytingum í framkvæmd á undanförnum árum. Ég er þess fullviss að ráðuneytið muni styðja Loga til góðra verka og ég mun kveðja samstarfsfólk mitt með söknuði.“

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynnt í gær. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á margar aðgerðir sem eru á borði menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytisins: t.a.m. að styðja við listir og menningu með myndarlegum hætti, hlúa að íslenskri tungu og leitast við að auka enn frekar útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum. Þar að auki hefur ríkisstjórnin í hyggju að fjölga lögreglumönnum og styrkja stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, þar sem háskólarnir munu leika lykilhlutverki, að því er segir í tilkynningunni.

Ráðgert er að breytingar á skipulagi og verkefnum ráðuneyta taki gildi 1. mars nk. en tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands verður lögð fyrir Alþingi í janúar. Engu að síður hefur Logi Einarsson þegar tekið við öllum þeim málaflokkum sem munu heyra undir menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytið, eftir að fyrirhugaðar breytingar taka gildi.