Fara í efni
Grunnskólar

Logi Einarsson ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla

Myndir: Samfylkingin - og af vef Stjórnarráðsins

Logi Már Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, verður ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sem tekur við völdum í dag.

Logi er sextugur. Hann er fæddur á Akureyri 21. ágúst 1964, sonur hjónanna Ásdísar Karlsdóttur íþróttakennara og Einars heitins Helgasonar myndlistarmanns og kennara, þekkts knattspyrnumanns og þjálfara.

Eiginkona Loga er Arnbjörg Sigurðardóttir dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands eystra. Börn þeirra eru Úlfur og Hrefna.

Logi er arkitekt að mennt. Hann var bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri 2012 til 2016 en hefur setið á Alþingi síðan 2016. Logi var formaður Samfylkingarinnar 2016 til 2022. Hann er fyrsti ráðherrann sem búsettur er á Akureyri síðan Kristján Þór Júlíusson lét af embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2021.

Ráðherraskipan í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er sem hér segir:

Samfylkingin

  • Kristrún Frostadóttir – forsætisráðherra
  • Logi Már Einarsson – menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra
  • Alma Möller – heilbrigðisráðherra
  • Jóhann Páll Jóhannsson – umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Viðreisn

  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir – utanríkisráðherra
  • Daði Már Kristófersson – fjármála- og efnahagsráðherra
  • Hanna Katrín Friðriksson – atvinnuvegaráðherra; landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðar
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir – dómsmálaráðherra

Flokkur fólksins

  • Inga Sæland – félags- og húsnæðismálaráðherra
  • Eyjólfur Ármannsson – samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra
  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir – mennta- og barnamálaráðherra

Ríkisstjórnin tekur við völdum á fundi ríkisráðs sem hefst á Bessastöðum kl. 16.30 í dag.