Fara í efni
Grunnskólar

Samfylkingin sigraði í Norðausturkjördæmi

Þingmenn Norðausturkjördæmis: 1. Logi Einarsson (S), 2. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M), 3. Jens Garðar Helgason (D), 4. Sigurjón Þórðarson (F), 5. Ingibjörg Ólöf Isaksen (B), 6. Eydís Ásbjörnsdóttir (S), 7. Ingvar Þóroddsson (C), 8. Þorgrímur Sigmundsson (B), 9. Njáll Trausti Friðbertsson (D), 10. Þórarinn Ingi Pétursson (B), landskjörinn.

Samfylking, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu öll inn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum í Norðausturkjördæmi. Lokaniðurstaðan er frábrugðin fyrstu tölum í gærkvöld og nótt að því leyti að Samfylkingin endar með tvo þingmenn, en ekki þrjá eins og fyrst leit út fyrir.

Vinstri græn bíða afhroð hér eins og á landinu öllu og missa báða sína þingmenn. Vekur raunar athygli að Sósíalistaflokkurinn fær 3,8% fylgi, eins og Vinstri græn. Þegar þetta er ritað er Framsóknarflokkurinn með tvo þingmenn inni og er annar þeirra landskjörinn (jöfnunarsæti), sem gæti breyst þegar lokatölur verða komnar úr öllum kjördæmum. Flokkur fólksins og Viðreisn náðu inn einum þingmanni hvor flokkur. 

Uppfært kl. 12:45: Annar þingmaður Framsóknarflokksins, Þórarinn Ingi Pétursson, náði kjöri sem landskjörinn þingmaður. Þetta kom í ljós eftir að lokatölur bárust úr Suðvesturkjördæmi og þar með lokatölur yfir allt landið.

Norðausturkjördæmi varð fyrst til að tilkynna tölur skömmu fyrir kl. 23 í gærkvöld, fyrst eftir talningu 2.000 atkvæða, klukkustund síðar höfðu 5.000 verið talin og svo 10.000 atkvæði. Þá var enn beðið eftir söfnun atkvæða frá kjörstöðum á Austurlandi og síðan flutningi með flugi frá Egilsstöðum til Akureyrar. Lokatölur voru svo klárar um kl. 10 í morgun.

Nú þegar niðurstaðan liggur fyrir í kjördæminu er spurt: Hverjir eru þingmenn Norðausturkjördæmis og hvar eiga þeir heima?

Niðurstaða kosninganna í Norðausturkjördæmi

Á kjörskrá: 31.039
Atkvæði greiddu: 79,9%

Flokkar sem verða á þingi:

B – listi Framsóknarflokks – 14,2% – 2 þingmenn (annar þeirra landskjörinn)
C – listi Viðreisnar – 9,4% – 1 þingmaður 
D – listi Sjálfstæðisflokks – 15% – 2 þingmenn 
F – listi Flokks fólksins – 14,3% – 1 þingmaður 
M – listi Miðflokksins – 15,7% – 2 þingmenn 
S – listi Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands – 21,3% – 2 þingmenn 

Næsti frambjóðandi inn var Katrín Sif Árnadóttir (F), en hana vantaði 178 atkvæði upp á að komast inn í stað annars þingmanns af D-lista.

Flokkar sem náðu ekki inn þingmönnum:

V – listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs – 3,8%
P – listi Pírata – 1,8%
J – listi Sósíalistaflokks Íslands – 3,8% 
L – listi Lýðræðisflokksins – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt – 0,8% 

Þingmenn Norðausturkjördæmis, raðað eftir atkvæðamagni:

1. Logi Einarsson (S) – Akureyri

2. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) – Garðabæ

3. Jens Garðar Helgason (D) – Eskifirði

4. Sigurjón Þórðarson (F) – Sauðárkróki

5. Ingibjörg Isaksen (B) – Akureyri

6. Eydís Ásbjörnsdóttir (S) – Eskifirði

7. Ingvar Þóroddsson (C) – Akureyri

8. Þorgrímur Sigmundsson (M) – Húsavík

9. Njáll Trausti Friðbertsson (D) – Akureyri

10. Þórarinn Ingi Pétursson (B) – Grenivík

Landskjörinn þingmaður. Þegar þessi frétt er skrifuð eru lokatölur ekki komnar úr öllum kjördæmum og því ekki staðfest endanlega hvaða þingmenn verða landskjörnir (jöfnunarþingsæti).

Uppfært kl. 12:45: Þegar lokatölur bárust úr Suðvesturkjördæmi var staðfest að Þórarinn Ingi er inni sem landskjörinn þingmaður.