Fara í efni
Frjálsíþróttir

KA-menn fengu slæman skell í Víkinni

Fyrrverandi samherjar eigast við í Víkinni í kvöld. KA-maðurinn Ásgeir Sigurgeirsson, til vinstri, og Daníel Hafsteinsson sem gekk til liðs við Víking fyrir leiktíðina. Mynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KA-menn fengu slæman skell í kvöld þegar þeir sóttu Víkinga heim í Bestu deildinni í knattspyrnu. Víkingar gáfu tóninn strax á þriðju mínútu þegar Valdimar Þór Ingimarsson kom þeim yfir, staðan var orðin 3:0 eftir 24 mínútur og þannig stóð í hálfleik. Segja má að þá hafi vonir KA-manna um stig löngu verið að engu orðnar en lokatölur urðu 4:0.

Eftir tvær umferðir eru KA-menn með eitt stig, þeir gerðu 2:2 jafntefli við KR á heimavelli í fyrstu umferðinni. Víkingar eru með sex stig, þeir unnu ÍBV í fyrstu umferð.

Valdimar kom Víkingi í 1:0 strax á þriðju mínútu sem fyrr segir. Hann skoraði með skoti utarlega úr vítateignum eftir laglegt spil en KA-menn voru óheppnir því boltinn hafði viðkomu í varnarmanni og breytti um stefnu þannig að Steinþór markvörður átti enga möguleika á að verja.

Valdimar skoraði aftur þegar tæpar 15 mín. voru liðnar af leiknum. Eftir frábært spil Víkinga renndi hann boltanum undir Steinþór vinstra megin í vítateignum.

Þriðja markið gerði Karl Friðleifur Gunnarsson á 24. mínútu. Hann fékk boltann langt utan vítateigs, lék í átt að KA-markinu, fékk nægan tíma til að athafna sig og þrumaði að marki vel utan teigs. Steinþór virtist sjá boltann seint og kom engum vörnum við.

Þegar þarna var komið sögu höfðu Víkingar átt fjögur skot á KA-markið, mörkin voru orðin þrjú og í fjórða skipti mátti litlu muna að þeir skoruðu.

KA ógnaði ekki mikið. Viðar Örn Kjartansson fékk að vísu gott færi fáeinum andartökum eftir að Víkingar gerðu fyrsta markið en þrumaði boltanum í hliðarnetið.

Eins furðulega og það hljómar þá var KA örlítið meira með boltann í fyrri hálfeiknum, skv. tölfræði sem birt var í beinni útsendingu Stöðvar 2 frá leiknum – og þegar upp var staðið kom reyndar í ljós að KA var með meira boltann í leiknum. Sannaðist þar hið fornkveðna að ekki skiptir máli hve mikið lið eru með boltann í leikjum, heldur þau gera við boltann á meðan þau hafa hann.

Fjórða mark Víkings kom eftir 10 mín. í seinni hálfleik. Stígur Diljan Þórðarson náði boltann af miðverðinum Hans Viktori úti á miðjum vallarhelmingu KA, Helgi Guðjónsson komst einn í gegn og skoraði örugglega undir Steinþór. Þar með gulltryggði Helgi sigur heimaliðsins.

Víkingar nýttu sannarlega betur þau augnablik sem boltinn var í þeirra röðum. Þeir hafa á að skipa mögnuðum sóknarmönnum og KA-menn fengu að kenna á því í kvöld. Víkingar voru í stuttu máli mun betri, varnarleikur KA-liðsins var ekki góður, Víkingar réðu miðsvæðinu að mestu og sóknarleikur KA var ekki upp á marga fiska. Því fór sem fór.

Leikskýrslan