Fara í efni
Forsetakosningar 2024

Vill að forsetinn búi á Akureyri hluta úr ári

Jón Gnarr á fundinum sem hann hélt fyrir utan Kaffi Ilm við Hafnarstræti í dag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Jón Gnarr, sem er í framboði til embættis forseta Íslands, sagði á framboðsfundi í dag að hann langi til þess að færa aðsetur forseta Íslands til Akureyrar hluta úr ári.  

Jón hélt fundinn í blíðskaparveðri við Kaffi Ilm í Skátagilinu á Akureyri. „Samkvæmt stjórnarskrá skal aðsetur forseta Íslands vera á Bessastöðum,“ sagði Jón við gesti framboðsfundarins. „Mig langar hinsvegar að færa aðsetur forsetans víðar og byrja á Akureyri. Þetta er ekki stór skrifstofa, nokkrar manneskjur sem fylgja. Ég sé enga ástæðu fyrir því að þetta ætti ekki að ganga. Í framhaldi mætti skoða möguleikana á því að fara víðar. Það myndi auðvelda forsetanum að vera í nánu sambandi við fólkið í landinu. Þegar ég var á Akureyri að leika í Leikhúsinu og dvaldi hérna um tíma, þá upplifði ég það að fá góða innsýn í líf fólks hérna.“

„Ég er með húsnæði í huga, en ég ætla ekki að gefa neitt upp um það hér og nú,“ hélt Jón áfram. „En ég væri ekki að segja þetta, ef mér væri ekki alvara.“   

Fleira var rætt á fundinum, en meðal annars barst spurning úr sal þar sem fyrrum samstarfsmaður Jóns úr Volvo-verksmiðju í Svíþjóð lýsti yfir áhyggjum af vinnusókn frambjóðandans. Gesturinn sagði að Jón hefði mætt mjög illa í vinnuna og vildi vita hvort Jón ætlaði sér að sýna sama kæruleysi á Bessastöðum. Jóni var mjög skemmt og gekkst strax við því að hafa ekki mætt vel í vinnuna hjá Volvo, en hann ætli sér að standa sig betur, verði hann forseti. 

Annað mál, sem brann á viðstöddum, var hvort að Jón myndi halda áfram með útvarpsþáttinn sinn Tvíhöfða, sem hann heldur úti með Sigurjóni Kjartanssyni og nýtur mikilla vinsælda. Jón sagði að hann sæi enga ástæðu fyrir því að Tvíhöfði þyrfti að hætta og lofaði viðstöddum að þátturinn myndi halda áfram þó að hann færi á Bessastaði. 

Jón lauk fundinum með því að taka framboðslag sitt, um miðaldra mann úr Vesturbænum sem vill verða forseti.