Fara í efni
Forsetakosningar 2024

„Við þurfum sérkennilegan forseta“

Jón Gnarr með hundinum Klaka. Mynd: Aðsend

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.

Jón Gnarr

Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?

Mér finnst komið nóg af neikvæðni og leiðindum í okkar fallega landi og langar að komast í aðstöðu til að vinna á móti því með áhrifaríkari hætti en ég hef hingað til geta gert sem listamaður.

Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?

Forsetinn á að vera stemningsmaður, einhver sem blæs fólki kjark í brjóst þegar á móti blæs og stendur með því í erfiðleikum og fagnar með því þegar vel gengur. Mér finnst forsetinn á ákveðinn hátt vera eins og fyrirliði í fótboltaliði sem nýtir hæfileika sína fyrir heildina.

Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?

Já mjög ánægður þetta er skemmtilegt og gefandi.

Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?

Ég met stöðu mína góða. Helmingur kjósenda eru óákveðinn og ég er nýbyrjaður kosningabaráttuna af krafti og ætla mér að gefa allt í botn á loka metrunum. Og ég hef fulla trú á því að ég komist í mark langt á undan öllum öðrum.

Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?

Nú hef ég búið á Akureyri og í Eyjafirði yfir tvö tímabil og náð að kynnast lífinu þar ágætlega. Mér finnst verða að efla og styðja samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ég vildi óska að flug væri ódýrara og svo hef ég ekki farið leynt með það að mig dreymir um lest milli þessara tveggja þéttbýliskjarna. Annað sem mér finnst mikilvægt er sameining sveitarfélaga, sérstaklega fyrir Eyjafjörð, þannig að Akureyri geti byggst upp án þess að ganga á einstaka náttúru eins og Kjarnaskóg, sem mér finnst einn dásamlegasti staður á landinu.

Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?

Nýkomin úr yndislegum heimsóknum um Norðurland og Vestmannaeyjar. Svo hyggst ég heimsækja Vesturland og Vestfirði næst.

Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?

Skógarböðin eru náttúrulega algjör perla. Naustaborgir og Fálkafell líka, en þar finnst mér frábært að vera. Ég er mikill göngumaður og mér finnst líka mjög gaman að ganga um gamla hluta Akureyrar, Eyrina og Innbæinn, og virða fyrir mér húsin og mannlífið.

Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)

Slá túnin með orfi og ljá.

Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?

Við höfum gríðarlega mikla aðlögunarhæfni, við kunnum að meta sérkenni og erum sjálf þekkt um allan heim fyrir að vera sérkennilegt fólk og þurfum þess vegna sérkennilegan forseta.