Fara í efni
Forsetakosningar 2024

Elskar rauðu rennibrautina í Sundlaug Akureyrar

Viktor Traustason. Mynd: Facebook

Kosið verður til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Akureyri.net óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum frá frambjóðendum, og munu svör þeirra birtast hér á vefnum. Allir frambjóðendur fengu sömu spurningar.

Viktor Traustason

 

Hvers vegna býður þú þig fram til embættis forseta Íslands?

Ég býð mig fram til þess að það sé möguleiki í boði fyrir fólk sem vill kjósa skýr og markviss stefnumál sem stuðla að þverpólitískri sátt og pólitískum stöðugleika.

Hvert er helsta hlutverk forseta Íslands að þínu mati?

Forseti skipar ráðherra, skrifar undir lög og stefnir saman Alþingi.

Ertu ánægð(ur) með kosningabaráttuna hingað til?

Það hefur verið áhugavert að sjá hversu margir vilja tala við mann hingað til en það er þreytandi að sjá auglýsingar úti um allt.

Hvernig meturðu stöðu þína miðað við skoðanakannanir?

Ég veit ekki hvaða skoðanakönnun er verið að tala um og ég hef ekki séð skoðanakönnun sem var framkvæmd eftir kappræðurnar. 

Hver er þín skoðun á byggðaþróun á Íslandi? Er nóg gert til þess að jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni, í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Eru einhver sérstök mál á þessu sviði sem eru þér hugleikin?

Nei, ég hef ekki sérstaka skoðun á því og slík málefni eiga heima á Alþingi. Mér finnst mikilvægt að þeir þingmenn sem taka þær ákvarðanir hafa stuðning kjósenda. 

Ætlar þú þér að ferðast um landið og kynna framboð þitt? Ef svo er, hvenær verður þú fyrir norðan?

Ég keyrði hringinn þegar ég safnaði undirskriftum nýlega þannig ég hef þegar ferðast um landið og talað við fólk. Ég hef ekki skipulagt aðra ferð út á land en ef mér er boðið myndi ég að öllum líkindum mæta. 

Átt þú þér uppáhalds stað eða afþreyingu á Akureyri?

Rauða rennibrautin í sundlauginni, sem ég kalla klósettskálina, er eitt mesta „rösh“ sem finnst. Æðisleg.

Hvað verður þitt fyrsta verk á Bessastöðum, ef þú hlýtur kosningu? (persónulegt, ekki sem tilheyrir skyldum forsetans)

Opna útidyrnar, stíga inn og skoða húsið. Ég hef ekki hugmynd um hvernig það lítur út að innan. 

Hverjir finnst þér styrkleikar okkar Íslendinga vera?

Hvað við erum hógvær og best.