Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Steinþór Már semur á ný til eins árs við KA

Mynd af vef KA í dag

Steinþór Már Auðunsson, Stubbur eins og hann er iðulega kallaður,  skrifaði í dag undir nýjan eins árs samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2025. Þetta segir á samfélagsmiðlum KA í dag.

„Stubbur sem er uppalinn hjá KA hefur verið einn besti markvörður Bestudeildarinnar undanfarin ár og átti heldur betur risastóran þátt í því að KA stóð uppi sem bikarmeistari í fyrsta skiptið í sögunni en seint í uppbótartíma átti hann stórkostlega vörslu er staðan var 1-0,“ segir í tilkynningunni.

Steinþór Már lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir KA sumarið 2007, þá aðeins 17 ára gamall. Frá árinu 2010 lék hann með Völsung,i Dalvík/Reyni, Þór og Magna. „Með Magna var hann lykilleikmaður í ævintýrinu í næstefstu deild áður en hann sneri loks aftur heim í KA árið 2021.“

Það ár var hann valinn besti leikmaður KA auk þess að vera valinn besti markvörður tímabilsins af sérfræðingum Pepsi Max stúkunnar og valinn í úrvalslið Morgunblaðsins.

Í dag hefur hann leikið 80 leiki fyrir KA í deild, bikar og Evrópu „og ljóst að þeir verða eitthvað fleiri eftir þessar frábæru fréttir,“ segir í tilkynningu KA-manna.

Áður hefur verið greint frá því að Bosníumaðurinn Kristijan Jajalo, hinn markvörðurinn í leikmannahópi KA síðustu ár, væri á förum. Hann er á leið af landi brott.