Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Hans Viktor bestur og Kári efnilegastur

Sigurður Skúli Eyjólfsson, sem á sæti í stjórn knattspyrnudeildar KA, Hallgrímur Mar Steingrímsson, Hans Viktor Guðmundsson, Kári Gautason og Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar. Mynd af vef KA.

Hans Viktor Guðmundsson var valinn besti leikmaður knattspyrnuliðs KA í sumar og Kári Gautason sá efnilegasti. Þetta var kunngjört og leikmennirnir heiðraðir í lokahófi KA-manna sem haldið var á Múlabergi á Hótel Kea í gærkvöldi. Þá var Hallgrímur Mar Steingrímsson verðlaunaður en hann varð markahæstur KA-manna í sumar.

Greint er frá þessu á heimasíðu KA. Þar segir meðal annars að fjölmargir KA-menn hafi fagnað uppskeru sumarsins og sigurgleðin verið allsráðandi, enda varð KA bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni. „Fyrr um daginn vann KA glæsilegan 1-4 útisigur á Fram sem tryggði sigur í neðri hluta Bestu deildarinnar.“

Á vef KA segir meðal annars:

  • Hans Viktor Guðmundsson var valinn besti leikmaður KA á tímabilinu en Hans sem gekk í raðir KA fyrir sumarið frá Fjölni átti heldur betur frábært sumar. Strax frá fyrsta leik sýndi hann og sannaði að hann er einn besti varnarmaður deildarinnar, þá frammistöðu sýndi Hans í allt sumar og má með sanni segja að stöðugleikinn sem hann sýndi í hjarta varnarinnar hafi verið lykilhluti í þessum frábæra árangri sem liðið náði í sumar.
  • Hallgrímur Mar Steingrímsson var markahæsti leikmaður KA í sumar en Grímsi skoraði 11 mörk í leikjum sumarsins. Tvö mörk gerði hann í Mjólkurbikarnum og hin níu komu í Bestudeildinni, þar af tvö í lokaleik sumarsins er KA tryggði sér efsta sætið í neðri hlutanum.
  • Kári Gautason var kjörinn efnilegasti leikmaður KA á tímabilinu en Kári sem er uppalinn hjá KA spilaði lykilhlutverk í sumar sem bakvörður eftir að hafa slegið í gegn á láni hjá Dalvík/Reyni á síðustu leiktíð. Kári sem verður 21 árs síðar á árinu spilaði 28 leiki í deild og bikar á tímabilinu og sýndi það heldur betur að hann er meira en klár í slaginn í deild þeirra bestu og verður gaman að fylgjast áfram með framgöngu hans.

KA-menn eftir að þeir urðu bikarmeistarar í sumar í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þeir sigruðu Víkinga 2:0 í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Nokkrir leikmenn voru heiðraðir fyrir að hafa náð tímamótum í leikjafjölda með KA í sumar: Bjarni Aðalsteinsson, Rodrigo Gomes Mateo og Sveinn Margeir Hauksson náðu allir 100 leikja markinu og þeir Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árni Aðalsteinsson léku báðir 200. leikinn fyrir KA á nýliðnu tímabili.  

Þá var Ragnari  Má Þorgrímssyni, Elmari Dan Sigþórssyni, Þórði Sigmundi Sigmundssyni og Tryggva Björnssyni veittur Dorrinn, gripur sem veittur er dyggum stuðningsmönnum og er til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson, sem lést árið 2011.

Nánar á heimasíðu KA: Hans Viktor bestur – Kári efnilegastur