Fara í efni
easyJet

Mjög þungbært að fólk verði fyrir fjártjóni

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson í Súlum, þotunni sem Niceair notaði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, segir mjög þungbært til þess að hugsa að almenningur verði fyrir fjártjóni og að hluthafar sjái á bak miklum fjármunum. Stjórn félagsins hafi þó ekki átt annan kost en að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Ástæður þess megi að flestu leyti rekja til sviksamlegra viðskipta erlends samstarfsaðila okkar. 

Þorvaldur skrifaði þetta í pistli sem hann birti á Facebook síðu sinni seint í gærkvöldi undir yfirskriftinni Úti er ævintýri.

Pistill Þorvaldar Lúðvíks er svona í heild:

„Kæru vinir,

Það er orðið ljóst að ekki reyndist unnt að bjarga því sem eftir var af Niceair eftir margra vikna lífróður. Stjórn fann sig tilneydda til að óska gjaldþrotaskipta. Ég reyndi til hins ítrasta að fá fjárfesta að verkefninu og bjarga því sem bjargað varð, taka skref til baka til að taka flugið í vetur eða næsta vor.

Áætlaður kostnaður við þann biðleik hljóp á 90-135m. Síðan þyrfti að endurfjármagna þegar flug myndi hefjast á nýjum forsendum.

Undanfarnar vikur var lögð mikil vinna í að ræða við fjárfesta utan hluthafahópsins, en oftar en ekki endaði samtalið á að “þið hljótið að redda þessu sjálf fyrir norðan”.

Það reyndist svo ekki ganga eftir.

Almennt séð gekk vel að fljúga um Akureyri og áætlanir gerðu ráð fyrir jafnvægi í rekstrinum 2023, enda myndi Bretland bætast við í haust. Það sýndi sig að flug um Akureyri er raunhæft.

Niceair varð fyrir tveimur meiri háttar skakkaföllum:

1. Ekki voru til staðar flugheimildir hjá samstarfsaðila (HiFly) milli Íslands og Bretlands (2022)

2. Sami samstarfsaðili fór síðast í vanskil við eiganda vélarinnar, Avolon, sem endaði á að gera vélina upptæka (2023)

Tjónið varð fyrst og fremst okkar, þar sem þetta var eina vélin sem við höfðum verið að vinna með.

Án flugvélar verða engar tekjur til.

Það er ekkert launungarmál að við höfðum verið að leita eftir meira fjármagni hjá fjárfestum undanfarna mánuði. Voru ýmis mið reynd, en í lokin tókst okkur þó að tryggja fjármagn til þess að fara inn í sumarið, ma með fulltyngi Byggðastofnunar, en það varð allt að engu þegar okkar samstarfsaðili missti vélina sem þýddi að við vorum flugvélalaus með fullt af farþegum út um allt um páskana.

Engan veginn gekk að fá aðra vél á þessum tíma, né síðar. Veruleg umframeftirspurn er nú eftir flugvélum og leiguverð hefur hækkað skarpt, sem kannski skýrir þann leik sem síðar fór í gang þegar HiFly greiddi ekki af vélinni “okkar”.

Eftir að við höfðum ekki lengur umráð yfir vélinni “okkar”, sem leigufélagið glutraði úr höndunum á sér, þvarr sá áhugi fjárfesta sem verið hafði.

Það er mjög þungbært að hugsa til þess að almenningur verði fyrir fjártjóni og hluthafar sjái á bak miklum fjármunum, sem voru notaðir til að búa til gott félag sem veitti góða þjónustu, en entist ekki líf til að komast upp úr sandkassanum.

Það er einnig þungbært að sjá á bak vinnustað sínum og samstarfsfólki, á sama tíma og það verður endanleg niðurstaða að draumur minn og mjög margra annarra, er úti að sinni.

Ég hafði ástríðu og hjarta í þetta verkefni, en ástæður þrots má að flestu leyti rekja til sviksamlegra viðskipta erlends samstarfsaðila okkar, sem gerði okkur ókleyft að halda áfram, þótt vitanlega hafi verið gerð mistök hér heima líka.

Ég lagði líf og sál, ómældan svita og andvökunætur í að láta þetta ganga upp.

Þessum kafla er lokið hjá mér.

Ást og friður.“