Fara í efni
easyJet

Kuldinn tafði fyrir viðgerð – nýr bíll í vor?

Eldsneytistankar á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í frétt fyrr í dag af töfum á flugi Niceair frá Akureyri til Kaupmannahafnar kom meðal annars fram að bilun í dælubúnaði hafi orðið til þess að brottför frá Akureyri tafðist og að orsökin hafi verið sá fimbulkuldi sem var á svæðinu á sunnudagsmorguninn.

Þessi bilun og vandkvæði við afísingu vöktu spurningar um hvort þróun innviða á flugvellinum næði að fylgja eftir þeim hraða vexti sem hefur verið og fyrirsjáanlegt er að verði í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair, benti meðal annars á Skeljung og bilanir í dælubúnaði sem hefðu komið upp þrisvar sinnum núna á stuttum tíma.

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segir það rétt að aukin umsvif á Akureyrarflugvelli kalli á meiri fjárfestingu og vonir standi til að nýr bíll bætist í flotann á Akureyrarflugvelli á vormánuðum eða byrjun sumars.

Varðandi bilunina á sunnudagsmorguninn var frostið mögulega ekki orsök bilunarinnar heldur átti þátt í að viðgerðin tók lengri tíma en ella, að því er fram kemur í skriflegu svari Þórðar við fyrirspurn frá Akureyri.net. „Það sem gerist er að það kemur upp bilun í afgreiðslubílnum og venjulega er gert við það á flugvellinum ef eitthvað kemur upp á. En vegna kuldans varð að fara með bílinn inn á verkstæði þar sem hann var lagaður, eða réttara sagt afgreiðslubúnaðurinn í honum. Ekki er vitað hvers vegna þessi bilun kom upp eða hvað olli því. Kuldinn gæti hafa haft með það að gera en það eru getgátur.“ Í svari Þórðar kemur jafnframt fram að það sé ekki algengt að bilun komi upp á, en það gerist þó og tafir vegna þessarar bilunar hafi orðið lengri þar sem ekki var hægt að laga búnaðinn á staðnum.

„Bílinn hefur þjónað okkur vel og honum hefur verið mjög vel við haldið, enda eru öryggiskröfur í afgreiðslu á þotueldsneyti miklar. Til að mynda er búnaðurinn í bílunum tekinn út nokkru sinnum á ári. En það er rétt að aukin umsvif á Akureyrarflugvelli kalla á meiri fjárfestingu og vonir standa til að nýr bíll bætist í flotann á Akureyraflugvelli á vormánuðum eða byrjun sumars,“ sagði Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Fimbulkuldi tafði för til Kaupmannahafnar