Fara í efni
easyJet

Easy Jet lengir flugtímabilið til og frá London

Fyrsta vél easyJet sem kom frá Manchester til Akureyrar á þriðjudag í síðustu viku. Mynd: Þórhallur Jónsson

Breska flugfélagið easyJet hefur ákveðið að lengja flugtímabil sitt á milli Akureyrar og Gatwick flugvallar í London um mánuð, bæði í vor og næsta haust. Þetta kom fram á flugráðstefnunni Flug til framtíðar sem stendur yfir í Hofi. 

Flogið verður út apríl á næsta ári en áður hafði verið tilkynnt að flogið yrði út í mars. Næsta vetur hefst síðan flug á ný milli Akureyrar og Gatwick flugvallar í London í október.

Á ráðstefnunni í Hofi er fjallað um millilandaflug um Akureyrarflugvöll, áhrif þess á ferðaþjónustu og samfélagið, auk þess sem rætt verður um uppbyggingu flugvallarins. 

Vaxandi eftirspurn í Englandi
 
Ali Gayward, svæðisstjóri easyJet í Bretlandi, tilkynnti þetta á ráðstefnunni Flug til framtíðar í Hofi í dag. Gayward gat ekki verið viðstödd fundinn en sendi myndbandsupptöku þar sem hún fór yfir það hvernig tekist hefði til með flug easyJet til Akureyrar.
 
„Við erum mjög ánægð með að tilkynna um þessa viðbót við okkar framboð og fleiri valmöguleikum viðskiptavina okkar. Við viljum með þessu mæta vaxandi eftirspurn eftir ferðum til Norðurlands, sem við höfum sérstaklega tekið eftir á milli ára með flugin frá London Gatwick. Með viðbótinni frá Manchester getum við náð til mun fleiri viðskiptavina á Norður-Englandi,“ segir Gayward í tilkynningu sem Markaðsstofa Norðurlands sendi.
 
„Áfram verður fylgst vel með eftirspurn frá Manchester og við höfum mikla trú á þeirri leið, miðað við viðbrögðin hingað til. Eftirspurnin eftir vetrarferðum frá Bretlandi er mun meiri en á öðrum árstímum og þess vegna bjóðum upp á flug á þessu tímabili,“ sagði Ali Gayward.
 
„Það er mikið fagnaðarefni að fá inn flug þessa tvo haust og vormánuði, þar sem þetta opnar á flug í vetrarfríium bæði Breta og Íslendinga. Í apríl hefur verið rólegra hjá norðlenskri ferðaþjónustu og því lengir þetta enn tímabilið þar sem við getum boðið upp á fulla þjónustu og jafnað árstíðarsveifluna,“ sagði Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
 
Tilkynning easyJet mun án efa gleðja marga Norðlendinga sem geta þá komist út í heim í páskafríinu beint frá Akureyri. 
 
  • Bætt var við upphaflegu fréttina eftir að Markaðsstofa Norðurlands sendi út tilkynningu kl. 14.30.