Fara í efni
Bogfimi

Íslensku stelpurnar með gull í bogfimi

Anna María Alfreðsdóttir, bogfimikona úr Íþróttafélaginu Akri, í lokaskotinu í viðureigninni við Lúxemborg í morgun. Örin fór beint í miðjuna, gaf tíu stig, og Ísland vann. Mynd: Skjáskot úr útsendingu frá mótinu.

Anna María Alfreðsdóttir, bogfimikona úr Íþróttafélaginu Akri, átti fullkomið lokaskot, beint í miðjuna sem gaf tíu stig og tryggði íslenska kvennaliðinu í bogfimi sigur á Lúxemborg í úrslitaviðureign Veronica's Cup í Kamnik í Slóveníu í morgun.

Ísland sigraði Lúxemborg samanlag 225-219. Aðstæður á mótinu í morgun, og reyndar nánast allt mótið, voru erfiðar, mikil rigning, keppnissvæðið blautt og tíu stiga hiti. 

Ísland vann fyrstu lotuna 56-50, Lúxemborg vann þá næstu 57-55, Ísland vann þriðju lotuna 59-57. Í síðustu lotunni hafði lið Lúxemborgar náð sér í 55 stig, en Ísland hafði 28 stig þegar íslensku stelpurnar þrjár áttu þá allar eftir að skjóta einni ör. Lúxemborg hafði þá náð 219 stigum samanlagt, en Ísland 196 og þurfti því 23 stig með síðustu þremur örvunum til að jafna, eða 24 til að vinna. Fyrsta örin í lokaumferðinni gaf tíu stig, önnur gaf níu og Ísland því aðeins fjórum stigum á eftir þegar kom að síðustu örinni og það var Anna María sem skaut henni. Svellköld setti hún örina beint í miðjuna, sem gaf tíu stig og Ísland vann þar með gullverðlaun á mótinu. Liðin enduðu jöfn í lokalotunni, 55-55, en lokatölur í heildina 225-219.

Samsett mynd, skjáskot úr útsendingu frá mótinu. Anna María Alfreðsdóttir að skjóta síðustu örinni og hún fór beint í miðjuna, eins og sjá má á hægra spjaldinu. Stigataflan í skjáskotinu sýnir stöðuna fyrir lokaskot Önnu Maríu.

Hér má sjá upptöku frá mótinu. Viðureign Íslands og Lúxemborgar er fremst í upptökunni.