Fara í efni
Bogfimi

Bogfimifólk Akurs vann sex Íslandsmeistaratitla

Feðginin Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson hirtu samtals þrenn gullverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Keppendur frá Íþróttafélaginu Akri náðu framúrskarandi góðum árangri á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi í byrjun mánaðarins. Þegar upp var staðið voru sex gullverðlaun komin í hús ásamt nokkrum silfur- og bronsverðlaunum, samtals 13 verðlaun sem komu í hlut keppenda frá Akri.

Í pistli á Facebook-síðu Akurs nefna þjálfarar jákvæða þróun meðal iðkenda hjá félaginu eftir að það fékk inni í Kaldbaksgötu 4 þar sem bogfimifólk hefur komið sér upp aðstöðu og æft síðan í október í fyrra. „Það er óhætt að segja að aðstaðan sem opnuð var í Kaldbaksgötu 4 í haust sé búin að breyta miklu fyrir okkur, það sjáum við bæði í andlitum þeirra sem koma á æfingar en einnig í þátttöku á mótum og fjölda verðlauna sem við komum með heim af þessum mótum.“ 


Tveir Íslandsmeistaratitlar. Anna María Alfreðsdóttir vann föður sinn í úrslitaviðureign sameiginlega flokksins. Mynd: Archery.is.
 

  • Anna María Alfreðsdóttir
    Íslandsmeistari í keppni með trissuboga, kvennaflokki og sameiginegum flokki.
  • Alfreð Birgisson
    Íslandsmeistari í keppni með trissuboga í karlaflokki og vann alþjóðlega hlutann, silfurverðlaun í sameiginlegum flokki.
  • Jonas Björk
    Íslandsmeistari í keppni með langboga, karlaflokki og sameiginlegum flokki.
  • Georg Rúnar Elfarsson
    Bronsverðlaun í keppni með sveigboga í karlaflokki.
  • Izaar Arnar Þorsteinsson
    Silfurverðlaun í keppni með berboga í karlaflokki og brons í sameiginlegum flokki.
  • Rakel Arnþórsdóttir
    Silfurverðlaun í keppni með berboga í kvennaflokki.
  • Liðakeppni (Anna María Alfreðsdóttir, Alfreð Birgisson, Benedikt Tryggvason)
    Bronsverðlaun í keppni með trissuboga.
  • Liðakeppni (Georg Rúnar Elfarsson, Izaar Arnar Þorsteinsson og Katrín Sif Antonsdóttir)
    Bronsverðlaun í keppni með sveigboga.

Akureyri.net hefur áður fjallað um bogfimifeðginin Önnu Maríu Alfreðsdóttur og Alfreð Birgisson, meðal annars í tengslum við bága aðstöðu félagsins áður en bogfimifólk fékk inni í Kaldbaksgötunni. Anna María og Alfreð mættust einmitt í úrslitaviðureigninni í sameiginlegum flokki (óháð kynjum) og þar hafði Anna María betur gegn föður sínum. 


Alexandra Kolka Stelly Eydal vann tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun á Íslandsmóti ungmenna um helgina. Mynd: Archery.is.

Auk Íslandsmeistaratitla í flokki fullorðinna fyrr í mánuðinum komu tveir slíkir í hlut Akurs á Íslandsmóti ungmenna um liðna helgi.

  • Alexandra Kolka Stelly Eydal
    Íslandsmeistari í keppni með sveigboga, vann með 1,5 millimetra mun í bráðabana eftir að úrslitaviðureignin endaði 5-5.
    Silfurverðlaun í keppni með sveigboga í sameiginlegum flokki.
  • Alexandra Kolka Stelly Eydal og Emilía Eir Valgeirsdóttir
    Íslandsmeistarar í félagsliðakeppni, settu auk þess Íslandsmet.