Fara í efni
Bogfimi

Frábær feðgin en nýliðun er engin

Feðginin Alfreð Birgisson og Anna María Alfreðsdóttir á æfingu í kjallara Íþróttahallarinnar. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Bogfimi hefur verið stunduð á Akureyri í hátt í hálfa öld, en segja má að íþróttin megi muna sinn fífil fegurri að vissu leyti. Afreksfólkið blómstrar, en aðstöðuleysið kemur í veg fyrir nýliðun.

Tíðindamaður Akureyri.net kíkti við hjá bogfimideild Íþróttafélagsins Akurs fyrir æfingu síðdegis á föstudag og spjallaði við bestu bogfimifeðgin landsins.

Feðginin Alfreð Birgisson og Anna María Alfreðsdóttir eru bæði íþróttafólk ársins hjá Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ) og jafnframt eru bæði á meðal tíu efstu í kjöri á íþróttafólki Akureyrar fyrir árið 2022, verðskuldað, að sjálfsögðu, því þau hafa bæði náð mjög góðum árangri í íþróttinni þrátt fyrir aðstöðuleysi undanfarin ár.

Í grunninn er keppt með þrenns konar mismunandi bogum í bogfimi, trissuboga, sveigboga og berboga. Kannski of tæknilegt að fara út í útskýringar á þessum þremur tegundum boga hér, en Alfreð og Anna María einbeita sér að trissuboganum – sem einkennist af hjólum (trissum) sem strengurinn rennur eftir þegar boginn er spenntur og síðan hleypt af.

Margfaldir meistarar

Alfreð vann nýlega bikarmeistaratitil 2023 í trissubogaflokki. Bikarkeppnin er mótaröð með sex mótum þar sem árangur á þremur bestu mótunum gildir. Ásamt því að geta státað sig af titlinum fá allir bikarmeistarar BFSÍ verðlaunafé að upphæð 50.000 krónur, sem þeim stendur til boða að fá greiddar út eða nýta upp í kostnað við þátttöku í innlendum mótum eða vegna landsliðsverkefna.

Hann er í þriðja sæti á World Series Open-heimslistanum sem stendur, en Bikarmót BFSÍ eru gild sem „World Series“ mót þannig að það skor sem keppendur ná á þeim mótum eru skráð hjá heimssambandinu, rétt eins og mót í fleiri löndum, og eins og í bikarmótunum gilda þrjú bestu skorin og þannig raðast fólk á listann. Í frétt frá BFSÍ kemur fram að staða bikarmeistara sambandsins á World Series Open-heimslistanum sé algjörlega ótrúleg.

Feðginin eru bæði tvöfaldir Íslandsmeistarar 2022, í keppni með trissuboga innan- og utan húss, ásamt því að vera ofarlega á alþjóðlegum styrkleikalista og settu bæði Íslandsmet í keppni með trissuboga á árinu. Anna María varð fjórða á EM U21 í fyrra.

Orðin betri en pabbinn, en skortir afreksstyrki

Anna María er 19 ára og hefur stundað bogfimi frá 2019. Var það pabbi hennar sem dró hana inn í bogfimina? „Já, hann leyfði mér að prófa í fyrsta skiptið og hann þurfti ekkert að draga mig mikið eftir það. Ég hef eiginlega ekki tekið frí, það kom ein pása þegar við vorum ekki með húsnæði og gátum ekki æft, en fyrir utan það hef ég verið á fullu,“ segir Anna María.

Ertu orðin betri en pabbi þinn?

Anna María brosir, en álengdar stendur pabbi hennar og kinkar kolli. „Já, stundum,“ segir hún.

Anna María er á leiðinni á EM ásamt föður sínum og 26 öðrum á vegum BFSÍ. Hún er í 2. sæti á áðurnefndum styrkleikalista í opnum flokki kvenna og efst á lista U21 árs fyrir trissuboga.

Hún er núna þriðja árið í röð á meðal tíu efstu í kjöri á íþróttakonu Akureyrar. Áhugavert þó í því samhengi að hún hefur ekki haft erindi sem erfiði hjá Afrekssjóði Akureyrarbæjar hvað styrki varðar.

Samnýting með Skotfélaginu og Bílaklúbbnum

Anna María og Alfreð æfa og keppa undir merkjum Íþróttafélagsins Akurs. Þau æfa núna í kjallara Íþróttahallarinnar, samnýta aðstöðu með Skotfélaginu, en stærð húsnæðisins takmarkar mjög starfsemina því aðeins geta fjögur æft samtímis með góðu móti, kannski sex til átta með því að skiptast á. „Við höfum tvo tíma á dag alla virka daga, höfum pláss fyrir fjórar skyttur á línu í einu, en við megum ekki taka inn nýliða. Þetta er bara fyrir afreksstarf. Þetta er sjötta önnin sem við erum að byrja núna sem við getum ekki tekið inn nýliða og þar af leiðandi ekki stór klúbbur orðið, því þetta er allt bara farið,“ segir Alfreð í samtali við akureyri.net.

Bogfimifólkið er í skondinni stöðu – deilir aðstöðu með Skotfélagi Akureyrar á veturna og Bílaklúbbi Akureyrar á sumrin. Það er nefnilega keppt í bogfimi bæði innan og utan húss og segir Alfreð þau hafa átt frábært samstarf við Bílaklúbb Akureyrar og getað æft á tjaldsvæði Bílaklúbbsins á sumrin.

Úr 75 iðkendum í sjö eða átta

Mjög góð aðstaða var fyrir bogfimiíþróttina um tíma hér á Akureyri. Í febrúar 2017 fengu keppendur frá Akri leyfi frá fasteignafélaginu sem átti Sjafnarhúsið til að fara þar inn og æfa sig fyrir Íslandsmót sem haldið var í Reykjavík í mars. „Þegar við vorum búin að prófa þetta var enginn til í að fara aftur í Glerárskóla þar sem Akur æfði áður, þannig að við sömdum um afnot af húsinu,“ segir Alfreð. Rúnar Þór Björnsson ljósmyndari hafði æft og keppt í bogfimi og hann stofnaði Bogaskyttuna. „En við notuðum alltaf bara Akursnafnið. Þessa aðstöðu notuðum við til 1. apríl 2020, en þá byrjuðu breytingar á húsinu og úr varð Norðurtorg. Þá voru skráðir 75 iðkendur. Haustið eftir fórum við í Reiðhöllina,“ segir Alfreð, en félagið lenti þó í hindrunum vegna heimsfaraldursins. „Loksins þegar við komumst inn þá vorum við í Reiðhöllinni, en með tímann milli 9 og 11 á kvöldin, þrisvar í viku,“ segir hann. Starfið hafi verið erfitt og skyttunum fækkað. „Við vorum átta eftir í þessu og haustið eftir komumst við hingað inn [í Íþróttahöllina] og þetta er því annar veturinn okkar hér. Við erum sex til sjö að skjóta núna,“ segir Alfreð.

Er það þá þannig að þau sem þrauka þetta áfram eru að blómstra á meðan félagið og íþróttin líða í raun fyrir skort á aðstöðu?

„Já, það er bara þannig. Árin 2018-2019 vorum við að fara kannski með 20 krakka á Íslandsmót ungmenna. Á Íslandsmótið síðastliðinn vetur fóru þrír og einn síðasta sumar, þannig að það er ekkert í gangi og við getum ekki byggt upp.“

Þrátt fyrir að afreksfólkið hafi staðið sig frábærlega stendur aðstöðuleysið félaginu, íþróttinni og nýliðun innan hennar hér á Akureyri fyrir þrifum, hvað þá að mótahald sé inni í myndinni. Aðstöðuleysið takmarkar einnig tekjumöguleika félagsins því með stærri aðstöðu var hægt að taka á móti hópum sem komu til að prófa, halda námskeið og bjóða upp á æfingar á öðrum tímum en nú eru í boði.

Af myndum á gamalli Facebook-síðu Bogaskyttunnar – miðstöðvar bogfimi á Akureyri – má ráða að þar hafi fjölbreytilegir hópar, vinahópar, vinnustaðir og fleiri komið til að prófa, æfa og keppa, ekki annað að sjá en að sumar myndirnar sýni hópa í gæsun og steggjun, svo dæmi sé tekið.

Talaði við frambjóðendur í stað þess að æfa sig

Sér bogfimifólk á Akureyri fram á bjartari tíð í aðstöðumálum, er eitthvað að gerast?

„Maður vonar alltaf. Svörin sem við fáum frá Akureyrarbæ eru alltaf svolítið erfið. Við höfum verið að óska eftir aðstoð og það sem virðist vera efst á blaði hjá þeim er að ef Golfklúbburinn fer út úr kjallaranum hinum megin þá komumst við þar inn. Það er hins vegar vandamál að þar er öll loftræstingin fyrir Íþróttahöllina og lofthæðin þar fyrir svona boga er einfaldlega ekki næg, við rekum hann bara upp í. Þannig að þar þyrftum við að fara í framkvæmdir. Við höfum ekki fengið úr því skorið hvort það sé hreinlega hægt. Við óskuðum eftir svörum við því í haust en fengum þau svör að það væri ekki tímabært að kanna það því það væri ekki búið að ákveða hvað ætti að gera við kjallarann.“

Félagið stendur auðvitað í ákveðinni togstreitu eða á krossgötum því mögulega þarf ákveðið marga iðkendur til að fá fyrirgreiðslu og aðstoð, en á meðan aðstaðan er eins hún er mun iðkendum ekki fjölga því nýliðun er hreinlega ekki leyfileg.

„Já, það er örugglega að hluta til horft á þetta svona, þetta eru sex iðkendur og hvað eigum við að gera fyrir þá? Það kæmi mér ekkert á óvart. Við óskuðum eftir að fá afnot af gamla leikskólanum Pálmholti, þegar við föttuðum að hann væri laus. Hann var búinn að vera laus í að verða ár og við vorum að fá svar núna um daginn að Skátarnir myndu sennilega fá það húsnæði,“ segir Alfreð.

Hann kveðst hafa gengið á milli framboða síðastliðið vor til að kynna stöðuna fyrir frambjóðendum. „Í staðinn fyrir að verja tímanum í að æfa mig, því þremur vikum eftir kosningar var EM, þá var ég að þvælast á milli framboða, en ekki að setja púðrið í æfingar.“

Ungt en öflugt samband

Bogfimisambandið er ungt samband, en þó tiltölulega sterkt að sögn Alfreðs og hefur bolmagn til að styrkja keppendur í landsliðsverkefnum, en þau feðgin hafa þó engu að síður mikið verið að leggja út fyrir kostnaði sjálf, til dæmis þegar þau fara á mót innanlands, sem augljóslega eru ekki haldin á Akureyri, og „þegar við fórum til Hollands í haust fórum við á þúsund manna mót, en það er ekki HM, EM eða neitt slíkt þannig að það voru engir styrkir þar,“ segir Alfreð Birgisson, bogfimimeistari og bogfimimeistarafaðir með meiru.