Fara í efni
Bogfimi

Anna María efst á heimslista U21

Anna María Alfreðsdóttir, bogfimimeistari úr Íþróttafélaginu Akri á Akureyri, hefur náð frábærum árangri á heimsmótaröð World Archery, alþjóða bogfimisambandsins. Hún kláraði tímabilið í efsta sæti í keppni í kvennaflokki U21 með trissuboga þegar mótaröðinni lauk og í 24. sæti í keppni fullorðinna með trissuboga.

Keppendur í U21 mótaröðinni (21 árs og yngri) voru 21 og í fullorðinsflokknum voru 776 keppendur. Hér er um innandyrakeppni að ræða, en mótaröðin – World Series Open – samanstóð af 26 mótum sem haldin voru víða um heim frá því í byrjun nóvember fram til febrúarloka.

Feðginin Alfreð Birgisson og Anna María Alfreðsdóttir á æfingu í kjallara Íþróttahallarinnar í vetur. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Faðir Önnu Maríu, Alfreð Birgisson, keppti í opnu heimsmótaröðinni á vegum World Archery í vetur, en hann keppir einnig með trissuboga. Alfreð endaði í 40. sæti á heimslista World Series Open af rúmlega 2.000 keppendum.

Þriðji fulltrúinn úr Íþróttafélaginu Akri, Máni Gautason, átti einnig frábært tímabil í opnu heimsmótaröðinni á vegum World Archery. Hann endaði í 5. sæti á heimslistanum í keppni með sveigboga karla U21 af 135 keppendum. Stigin í mótaröð U21 giltu einnig til röðunar á heimslista í flokki fullorðinna og þar endaði Máni í 53. sæti af rúmlega þúsund keppendum.

Akureyri.net ræddi við þau feðgin fyrr í vetur, en árangur keppenda frá Íþróttafélaginu Akri vekur sérstaka athygli í ljósi aðstöðuleysis sem stendur fjölgun og þróun keppenda fyrir þrifum. Aðeins örfáir geta æft samtímis og nýliðun er útilokuð vegna aðstöðuleysis.

Frábær feðgin en nýliðun er engin | akureyri.net

Hvernig virkar mótaröðin og heimslistinn?

  • Við röðun á World Series Open heimslistann eru tekin þrjú bestu skor þátttakenda í mótum sem tengd eru við mótaröðina.
  • Þrjár keppnisgreinar: sveigbogi (recurve), trissubogi (compound) og berbogi (barebow). Keppt er í flokkum karla og kvenna, auk þess sem sambandið bætti við U21 heimslista í fyrsta skipti á þessu tímabili.
  • Alls voru 22 mót víða um heim sem tengd voru við heimslistann, auk fjögurra aðalmóta sem haldin voru í Taiwan, Nimes í Frakklandi, Las Vegas í Bandaríkjunum og Lúxemborg.
  • Enginn Íslendingur tók þátt í aðalmótunum, en líklegt að nokkrir keppendur hefðu komist inn á úrslitamótið miðað við stöðu á stigalistanum. Þangað fór þó enginn og er kostnaðurinn aðalástæðan
  • Fjögur af sex mótum í Íslandsbikarmótaröð Bogfimisambands Íslands gáfu stig inn á heimslistann og átti Ísland flest mót allra landa sem tengd voru við listann. Það má því orða það þannig að árangur okkar fólks byggist á góðu og skipulögðu mótahaldi BFSÍ á Íslandi.