Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Hjóla, hlaupa eða ganga til styrktar KAON

Stelpugleði Akureyrardætra verður haldin fimmtudaginn 29. ágúst. Mynd: Akureyrardætur.

Hjólreiðafélagsskapurinn Akureyrardætur hefur haldið Stelpugleði árlega undanfarin ár með það annars vegar að markmiði að fá konur til að taka þátt og skemmta sér saman og hins vegar að safna fé fyrir góð málefni. Þessi viðburður verður nú sameinaður öðrum söfnunarviðburði sem nefndur hefur verið styrktarsamhjól. Stelpugleðin verður haldin fimmtudaginn 29. ágúst og hefst kl. 18. Upphafsstaður er Laugarborg í Hrafnagilshverfinu í Eyjafjarðarsveit.

Að þessu sinni safnar hópurinn áheitum til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Viðburðurinn verður útvíkkaður frá því sem verið hefur og boðið er upp á að hjóla, hlaupa eða ganga. Hjóluð verður rúmlega 30 km leið frá Laugarborg inn að Smámunasafni og aftur til baka. Einnig verður í boði að hlaupa eða ganga fimm kílómetra á stígnum frá Laugarborg í átt að Akureyri og til baka. Drykkjarstöðvar verða á báðum leiðunum.

Að hjólreiðum, hlaupi og göngu loknu koma þátttakendur saman í Laugarborg þar sem í boði verða veitingar, drykkir og útdráttarverðlaun, auk þess sem frítt verður fyrir þátttakendur í sund í Hrafnagilslaug á eftir. 

Til að staðfesta þátttöku þarf að greiða þátttökugjaldið inn á reikning Akureyrardætra. Nánari upplýsingar um skráningu og greiðslu þátttökugjalds má finna á viðburðinum á Facebook - sjá hér.