Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Greifinn verður áfram helsti bakhjarl Hafdísar

Hafdís Sigurðardóttir fyrr í þessum mánuði eftir að hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari þriðja árið í röð.

Veitingahúsið Greifinn verður áfram aðalstyrktaraðili Hafdísar Sigurðardóttur, margfalds Íslandsmeistara í hjólreiðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Hafdís átti ótrúlegu gengi að fagna á síðasta keppnisári og er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari í bæði götuhjólreiðum og tímatöku kvenna auk þess sem hún var valin Íþróttakona Akureyrar og hjólreiðakona Íslands,“ segir í tilkynningu frá Greifanum.

„Við á Greifanum viljum standa við bakið á Hafdísi enda mikilvægt að fyrirtækin í bænum styðji við afreksfólkið okkar. Hafdís hefur sýnt það og sannað að hún er ekki einungis afbragðs keppnismanneskja heldur frábær fyrirmynd sem hefur eflt hjólreiðar á svæðinu og hvatt aðra áfram til árangurs,“ segir í tilkynningu.

Hafdís hefur verið valin hjólreiðakona ársins af Hjólreiðasambandi Íslands síðustu tvö ár og er tvöfaldur Íslandsmeistari, bæði í tímatöku og götuhjólreiðum, þrjú ár í röð, 2022, 2023 og 2024. Hún hefur átt fast sæti í landsliðinu síðan 2021, var kjörin íþróttakona Akureyrar 2022 og 2023 og varð í þriðja sæti í kjörinu á síðasta ári.

Framundan er Arna Vestfjord, 4 daga keppni á malarvegum á Vestfjörðum, þar sem hjólaðir eru 200 til 250 km á dag. Síðan tekur við keppni  hér og þar erlendis, bæði í götuhjólreiðum og keppni á malarvegum.

Í tilkynningunni er haft eftir Hafdísi að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir sig að jafn þekkt og öflugt fyrirtæki og Greifinn velji að verða bakhjarl  hennar, enda fylgi því ærinn kostnaður að vera íþróttamaður á landsbyggðinni. „Svo er Greifinn líka mathöll útaf fyrir sig, frábær matur fyrir keppni og eftir,“ segir hún.