Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Fagnaði enn tvöföldum sigri á Íslandsmótinu

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari þriðja árið í röð.

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari í hjólreiðum, vann titilinn bæði í götuhjólreiðum og í tímatöku. Í báðum greinunum var hún að landa þriðja Íslandsmeistaratitlinum í röð.

Akureyringar unnu reyndar bæði gull og silfur í A-flokki kvenna því næst á eftir Hafdísi kom Silja Jóhannesdóttir, sem einnig keppir undir merkjum HFA. Þá varð Harpa Mjöll Hermannsdóttir úr HFA í 3. sæti í B-flokki kvenna. 

Verðlaunahafarnir í Elite-flokki kvenna í götuhjólreiðum. Silja Jóhannesdóttir (2. sæti), Hafdís Sigurðardóttir (Íslandsmeistari) og Ágústa Edda Björnsdóttir úr Tindi (3. sæti). 

Keppnin í götuhjólreiðum hófst á Sauðárkróki þaðan sem hjólað var um veginn yfir Þverárfjall og aftur til baka til Sauðárkróks og síðan endað á skíðasvæðinu í Tindastóli. Akureyrardætur, félagsskapur hjólandi kvenna á Norðurlandi, voru einn þriggja mótshaldara, en þær héldu mótið í samstarfi við hjólreiðadeild Breiðabliks og Hjólreiðafélagið Drangey. 

Vann einnig titil í tímatökunni

Íslandsmótið í tímatöku fór fram á Hólum í Hjaltadal á föstudag. Þar hélt Hafdís uppteknum hætti og landaði enn einum Íslandsmeistaratitlinum. Hafdís sigraði í svokölluðum Elite-flokki og það þriðji Íslandsmeistaratitillinn í röð sem hún vinnur í tímatöku.


Keppendur í götuhjólreiðum voru ræstir á Sauðárkróki þaðan sem þeir hjóluðu yfir Þverárfjall og til baka og svo að lokum upp að skíðasvæðinu í Tindastóli. Mynd: Andri Már Helgason.

Aðrir keppendur frá UFA sem unnu til verðlauna í tímatökunni voru: 

  • Rögnvaldur Már Helgason – 1. sæti í B flokki karla
  • Thelma Rut Káradóttir – 3. sæti í B flokki kvenna
  • Júlía Björg Jóhannsdóttir – 1. sæti U11 kvenna
  • Kristófer Atli Garðarsson – 1. sæti U11 flokki karla