Fara í efni
Akureyrarvaka

Öflug leikfangagerð á Akureyri 1931–1960

SÖFNIN OKKAR – 59

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Eflaust rötuðu mörg leikföng undir jólatréð þetta árið. Líklega öll innflutt og þá úr einhverskonar plastefnum. Um hríð var blómleg leikfangaframleiðsla á Akureyri sem seldi vörur sínar um land allt.

Frumkvöðullinn og trésmiðurinn Skarphéðinn Ásgeirsson, oftast kenndur við Amaro, greip til þess ráðs að stofna leikfangaverkstæði á Akureyri árið 1931, ekki síst til að skapa atvinnu; „menn þökkuðu guði ef þeir fengu að vinna dagstund við uppskipun á sementi eða annað tilfallandi,“ segir Skarphéðinn í viðtali við Frjálsa verslun árið 1971.

Skarphéðinn fékk fyrirmyndir og teikningar af leikföngum úr ýmsum áttum en fór fljótlega að hanna eigin leikföng. Leikföngin voru úr tré og voru flugvél og vörubíll með því fyrsta sem hann smíðaði. Framleiðslan vatt upp á sig og leikföng Leikfangagerðar Akureyrar voru seld um land allt enda ódýr en umfram allt vönduð. Efniviður til leikfangaframleiðslunnar kom fyrstu árin frá Þýskalandi, aðallega tíst og bauldósir, sem notuð voru í dýrin, en þegar heimsstyrjöldin skall á var ómögulegt að nálgast efni og framleiðslan lagðist af.

Verkstæðið rak Skarphéðinn á heimilum sínum, fyrst Oddagötu 7 og síðar Helgamagrastræti 2 sem hann byggði. Þegar mest var umleikis í leikfangasmíðinni voru fjórir til fimm menn í vinnu hjá Skarphéðni. Yfir 60 mismunandi leikföng voru framleidd hjá Leikfangagerð Akureyrar.

Þegar starfsemin hafði legið niðri í um eitt ár tóku bróðir Skarphéðins, Baldvin Leifur Ásgeirsson, og Guðmundur Tryggvason, sig til og stofnuðu nýja leikfangagerð undir heitinu Leifsleikföng, en hún var byggð á sama grunni og Leikfangagerð Akureyrar.

Guðmundur hætti hjá fyrirtækinu 1952, Baldvin hélt áfram en smíðaði ýmsa aðra hluti auk leikfanganna. Þegar innflutningur á leikföngum jókst brast grundvöllur fyrir framleiðslu leikfanga innanlands. Í ofanálag var plast að ryðja sér til rúms sem efniviður í leikföng og framleiðsla leikfanga úr því efni hófst hjá Reykjalundi. Sögu þessarar leikfangagerðar á Akureyri lauk árið 1960. Leikföngin sem framleidd voru hjá fyrirtækjunum lifðu þó áfram enda vönduð og úr efni sem þolir betur að eldast en plast. En þau varðveitast ekki síst þar sem þau voru fólki kær og rötuðu inni í geymslu eða jafnvel sem stofustáss.

Tréöndin góða úr smiðju Leikfangagerðar Akureyrar, til hægri, og sama önd á Evrópufrímerkinu árið 2015.

Eitt leikfanganna sem framleitt var hjá Leikfangagerð Akureyrar fékk þó framhaldslíf nokkrum áratugum síðar. Það var árið 2015 þegar mynd af tréönd frá fyrirtækinu var valin á svokallað Evrópufrímerki sem gefin hafa verið út árlega frá árinu 1956 af sambandi opinberra póstrekenda í Evrópu.

Þessi önd og ýmis leikföng frá Leikfangagerð Akureyrar og Leifsleikföngum er að finna á Iðnaðarsafninu og í Leikfangahúsinu.

Iðnaðarsafnið er opið daglega frá 13-16.