Fara í efni
Akureyrarvaka

Hver var Kristján – Af hverju Kristjánshagi?

SÖFNIN OKKAR – 56

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Í mars 2014 kom nafnanefnd Akureyrarbæjar saman til þess að fjalla um nöfn á götum í nýju hverfi, Hagahverfi. Á fundinum varð til listi með 12 götunöfnum, sem nefndin lagði til að notuð yrðu í hverfinu.

Eins og margir bæjarbúar þekkja eru göturnar kenndar við fólk og við val þeirra hafði nefndin það m.a. að leiðarljósi að um væri að ræða kunna látna Akureyringa, sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins.

Skjal dagsins tengist einu þessara götunafna, þ.e. Kristjánshaga – sem nefnd er eftir skáldinu Kristjáni Einarssyni sem kenndi sig við fæðingarbæ sinn, Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi. Um er að ræða bréf til skáldsins frá norska rithöfundinum Thorbjørn Egner.

Staðartunga - Akureyri - Hveragerði

Kristján Einarsson var fæddur 16. júlí 1916 að Djúpalæk. Kona hans var Unnur Friðbjarnardóttir en henni kynntist hann þegar þau voru við nám á Eiðum, tvítug að aldri.

Kristján og Unnur hófu búskap að Staðartungu í Hörgárdal, en það var æskuheimili Unnar. Kristján heillaðist aldrei af búskap og var það svo að fimm árum seinna brugðu þau búi og fluttust til Akureyrar. Það var árið 1943. Í lok árs 1949 flytja þau til Hveragerðis, en þar blómstraði listamannamenning á þeim tíma. Þá var Kristján orðinn þekkt ljóðskáld.

Því miður, eins og hjá fleiri listamönnum, þá dugði skáldskapurinn ekki til að halda uppi fjölskyldu og þurfti Kristján þvi að taka að sér hin ýmsu störf í gegnum árin, sem honum þó líkuðu mis vel. Á Akureyri vann hann ýmis verksmiðjustörf og eftir að þau fluttu suður þá vann hann við kennslustörf í barnaskólum, garðyrkju og húsamálun svo eitthvað megi nefna.

Árið 1961 flytja þau hjónin með ungan son sinn, Kristján, aftur norður til Akureyrar og bjuggu þar upp frá því. Kristján lést þann 15. apríl 1994.

Síglaðir söngvarar

Aftur að skjali dagsins. Thorbjørn Egner var afar fjölhæfur listamaður, fékkst við myndlist og samdi ljóð, sögur, leikrit og tónlist. Hann er einna þekktastur fyrir leikrit sín Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus, en sendi einnig frá sér fjölda bóka, myndskreytti bækur og vann margskonar barnaefni fyrir útvarp. Kristján frá Djúpalæk þýddi söngtexta í öllum verkum Egners sem sýnd voru og gefin út hér á landi.

Í bréfinu kveðst Thorbjørn hafa svarað útgáfufyrirtækinu á Akureyri og samþykkt að gefin verði út plata með leikritinu Musikantene. Hann segist sérstaklega ánægður – særdeles glad – að Kristján hafi þýtt söngtextana. Varðandi greiðslur vonast Norðmaðurinn til þess að Kristján  fallist á sambærilega samning og Halfdan Rasmussen, sem þýddi söngtextana úr norsku á dönsku; að þeir skipti greiðslum jafnt, „50% til deg og 50% til meg,“ skrifar Thorbjørn Egner.

Bréf Egners til Kristján er ritað 19. mars 1973 og umrædd hljómplata, Síglaðir söngvarar, kom út hjá Tónaútgáfunni á Akureyri síðar sama ár.