Fara í efni
Akureyrarvaka

Stórhýsi Metúsalems og apar á Sigurhæðum

SÖFNIN OKKAR – 58

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Það getur ýmislegt leynst á einni ljósmynd. Fyrir jól greindum við frá einni slíkri sem Hallgrímur Einarsson ljósmyndari tók í upphafi 20. aldar. Myndin er tekin fyrir utan Sigurhæðir, hús séra Matthíasar Jochumssonar og Guðrúnar Runólfsdóttur. Á myndinni eru Guðrún og tvö af börnum þeirra hjóna, en einnig eru þar tveir apar. Apana sendi Steingrímur Matthíasson læknir til Akureyrar sumarið 1904 og áttu þeir heima í Spítalavegi 9 næstu árin. Þetta þóttu stórtíðindi í þá daga og myndi slíkt þó ekki síður vekja athygli í dag.

Við nánari skoðun á ljósmyndinni kom annað og meira í ljós sem einnig er merkilegt fyrir sögu Akureyrar. Í síðustu færslu höfðum við klippt myndina til en að þessu sinni birtist hún hér óklippt. Hægra megin sér nú út á Oddeyri og sjást þar meðal annars hús við Strandgötu. Þar blasir við sérstaklega eitt afar stórt og tilkomumikið hús. Þetta mun vera gamla Strandgata 23 sem stóð í skamman tíma. Fyrsta húsið sem stóð á þessum slóðum var reist árið 1882 og stóð það þar næstu 20 árin. Árið 1902 fékk Metúsalem Jóhannsson kaupmaður leyfi til þess að flytja húsið aðeins norðar og stendur það enn við Lundargötu 2. Sama ár reisti hann Strandgötu 23 og er það húsið sem sést á umræddri ljósmynd. Metúsalem rak verslun í húsinu og framan á því stóð stórum stöfum „Verslun M. Jóhannsson“. Húsið stóð þó ekki lengi því aðfararnótt 1. mars 1906 brann það til kaldra kola. Þá urðu 35 manns húsnæðislausir sem undirstrikar enn frekar stærð þess. En Metúsalem dó ekki ráðalaus og fékk sama ár leyfi til þess að byggja annað hús á sömu slóðum. Var húsið reist og stendur enn í dag. Ekki hafa varðveist margar myndir af gamla húsinu og var því ánægjulegt að önnur mynd skildi bætast við í sarpinn.

Hluti úr ljósmynd sem Magnús Ólafsson tók sumarið 1905. Strandgata 23, sem brann 1906, er annað húsið frá hægri og má lesa „Verslun M. Jóhannsson“ framan á því. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Magnús Ólafsson, MAÓ1467.

Norðurland greindi frá atburðinum nokkuð ítarlega tveimur dögum eftir brunann. Þar sagði meðal annars:

„Húsið var nýlega bygt, tvílyft fyrir ofan kjallara, 25x14 álnir að stærð og að auki tvílyftur skúr 10x8 álnir. Eldsins varð fyrst vart á 12. tíma fyrir miðnætti og er talið víst að kviknað hafi í kjallara hússins. Hafði maður verið þar að smíðum við ljós um kvöldið og þar mun eldsins fyrst hafa orðið vart, en að öðru leyti er ókunnugt um hvernig þetta hefir til viljað. Húsið var fallið nálægt 1 1/2 tíma eftir að menn vissu að kviknað var í því, svo alt varð þetta með skjótri svipan.“ (Norðurland 3. mars 1906, 100).

Það getur reynst snúið að tímasetja myndir nákvæmlega, sérstaklega ef þær eru teknar fyrir mörgum tugum eða jafnvel meira en hundrað árum síðan. Með rannsóknarvinnu má þó stundum komast býsna nálægt ártalinu og ýmislegt í myndinni sjálfri getur hjálpað til. Umrædd mynd er gott dæmi um þetta. Myndin getur ekki verið tekin fyrir júnímánuð 1904 því aparnir komu ekki fyrr en seinna í mánuðinum það ár. Jafnframt getur hún ekki verið tekin síðar en í lok febrúar 1906 því þá brann Strandgata 23. Myndin virðist vera tekin að sumri til, að minnsta kosti ekki í janúar eða febrúarmánuði og því er öruggt að myndin er tekin annað hvort árið 1904 eða 1905.