Fara í efni
Umræðan

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Í vikunni héldu stéttarfélög verslunarfólks í Evrópu (UNI Europa Commerce) ráðstefnu þar sem ofbeldi gegn verslunarfólki var m.a. til umfjöllunar. Kynnt var skýrsla sem birt var í tengslum við heimsþing stéttarfélaga verslunarfólks (UNI Global Union Congress), sem fór fram í Fíladelfíu í september á þessu ári.

Í skýrslunni er ljósi varpað á ofbeldi og áreitni í verslunargeiranum auk þess að kynna forvarnir og aðgerðir sem atvinnurekendur og ríkisstjórnir geta innleitt til þess að verja og vernda verslunarfólk og bæta þar með starfsumhverfi þess.

Rannsóknir, sem kynntar eru í skýrslunni, sýna að þrátt fyrir að ofbeldi og áreitni hafi minnkað frá því það náði hámarki í heimsfaraldrinum, verður starfsfólk verslana enn fyrir miklu og óásættanlegu ofbeldi og áreiti við vinnu. Staðan á Íslandi er engu betri, en í niðurstöðum könnunar á vegum VR kemur fram að ríflega helmingur starfsfólks í verslun hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi á ferlinum.

Myndband frá UNI Global sem vekur athygli á ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Ísland innleiði samþykkt C-190 frá ILO

Í janúar 2020 samþykkti UNI Global Commerce einróma ákvörðun um að hefja herferð gegn ofbeldi og áreitni í verslun og þjónustu um allan heim. UNI Europa Commerce hefur auk þess hvatt allar þjóðir til þess að innleiða samþykkt C-190 ILO (Alþjóða vinnumálastofnunarinnar), alþjóðlegan sáttmála sem tekur á ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Aðeins 36 þjóðir hafa tekið skrefið - Ísland er ekki þar á meðal.

Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands og fulltrúi í stjórn ILO, ritaði í vikunni grein þar sem segir „samþykktin felur í sér sögulegt tækifæri til að móta framtíð sem byggir á reisn og virðingu fyrir þeim grundvallarréttindum alls launafólks að vera laust við ofbeldi og áreitni í tengslum við vinnu sína“. Sem hagsmunafélag verslunarfólks í Eyjafirði tekur Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyrar og nágrennis (FVSA) undir orð Magnúsar og hvetur stjórnvöld til þess að lögfesta C-190 samþykkt ILO.

Verslum af virðingu

Mikil framþróun hefur átt sér stað á sviði verslunar með tilheyrandi breytingu á vinnuumhverfi starfsfólks. Aukin vefverslun og sjálfsafgreiðsla eru skýrustu dæmin, ásamt breyttum kaupvenjum neytenda. Álagstímabil eins og jól og stórir útsöludagar, t.d. singles day, black friday og cyber monday, skapa auk þess mikið vinnuálag með tilheyrandi streytu fyrir verslunarfólk og neytendur. Slíkar aðstæður geta skapað farveg fyrir slæm samskipti, auknar líkur á ofbeldi og vanlíðan starfsfólks.

Það færist í aukana að verslunarrekendur leita til stéttarfélagsins með fyrirspurn um réttindi sín og starfsmanna sinna þegar kemur að samskiptum við viðskiptavini. Öllu ofbeldi og áreiti fylgir kvíði, streita og vanlíðan sem getur, ef látið óskipt, leitt til veikinda hjá starfsfólki. Atvinnurekendur og stjórnendur gegna mikilvægu hlutverki í að sporna við áreitni, ofbeldi og einelti á vinnustað með því að tryggja að forvarnir og viðbragðsáætlun séu til staðar.

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni hefur áður birt hvatningu til almennings um að taka kurteisina með í næstu verslunarferð. Væntingar okkar til samfélagsins, þar sem allt gerist á methraða, stangast oft á við það sem er í mannlegu valdi. Fúkyrði og dónaskapur leysir ekkert, en það er öruggt að starfsmenn sem verða fyrir slíku eiga ekki góðan vinnudag.

Sýnum verslunarfólki virðingu!

Eiður Stefánsson er formaður Félags verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30