Þórsarar fóru illa með Magnamenn í bikarnum

Þórsarar flugu í gærkvöld inn í 32 liða úrslit bikarkeppni Knattspyrnusambandsins, Mjólkurbikarkeppninnar, þegar sigruðu Magna frá Grenivík 7:0 í Boganum. Yfirburðir Þórs voru miklir eins og búast átti við og tölurnar bera með sér. Þór leikur í B-deild Íslandsmótsins en Magni deild neðar.
Þórsarar byrjuðu með látum og leik var í raun lokið þegar fyrri hálfleikur var flautaður af. Ekki er hægt að fullyrða neitt um styrk Þórsliðsins eftir þennan leik, til þess var mótspyrnan of lítil, en Þór teflir sannarlega fram spennandi liði.
Senegalinn Ibrahima Balde er skemmtileg viðbót við leikmannahópinn. Balde, sem kom frá Vestra í vetur, er hávaxinn og áberandi, hefur afar gott auga fyrir spili og tilkoma hans gefur leik liðsins nýja vídd. Hann hefur átt heldur erfitt uppdráttar á síðustu vikum, var t.d. rekinn af velli bæði gegn ÍR í Lengjubikarkeppninni og KA í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins, en lék vel í gær. Balde virðist reyndar eiga nokkuð í land með að komast í nægilega gott líkamlegt ástand en Lengjudeild Íslandsmótsins hefst ekki fyrr en eftir mánuð. Fróðlegt verður að fylgjast með honum í sumar.
- Ibrahima Balde gerði tvö fyrstu mörk leiksins, á 9. og 21. mín., bæði með skoti úr miðjum vítateig eftir laglegt spil Þórsara og sendingu frá hægri. Þetta voru fyrstu mörk Balde fyrir Þór.
- Einar Freyr Halldórsson kom Þór í 3:0 á 35. mín. Enn fékk Þórsari að athafna sig lítt áreittur í miðjum vítateig og skot Einars þaðan endaði í marki Magna. Þetta var fyrsta mark Einars Freys fyrir meistaraflokk Þórs.
Ibrahime Balde kemur Þór í 2:0 þegar 20 mínútur voru liðnar. Þetta var annað mark hans fyrir Þór – það fyrsta gerði hann á níundu mínútu leiksins í gær. Myndir: Ármann Hinrik
- Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór í 4:0 á 43. mín. – þrumaði boltanum í netið úr markteignum eftir fasta sendingu Rafaels Victor frá hægri.
- Þegar komið var í uppbótartíma gerði Aron Ingi Magnússon fimmta markið. Juan Guardie Hermida sendi boltann inn í vítateiginn vinstra megin, allir virtust halda að sá hnöttótti væri á leið aftur fyrir endamörk, nema Sigfús Fannar sem skaust fram fyrir varnarmann og náði að koma boltanum út í markteiginn á Aron Inga sem skoraði.
- Atli Þór Sindrason skoraði á 64. mín. og kom Þór í 6:0 með föstu skoti úr miðjum vítateignum eftir að Balde plataði varnarmenn með því að láta boltann fara til Atla eftir fyrirgjöf. Þetta var annað mark Atla Þórs fyrir meistaraflokk, það fyrsta var mark í 4:1 sigri á HK í Lengjubikarkeppninni í febrúar.
- Sverrir Páll Ingason gerði sjöunda og síðasta markið á 76. mín. Boltinn var sendur af vinstri kanti yfir á hægri hluta vítateigs, aftur reiknuðu flestir með því að boltann væri á leið aftur fyrir endamörk en varnarmaðurinn Hermida náði honum á síðustu stundu, sendi til baka inn á markteig þar sem Sverrir skallaði í markið. Þetta var annað mark hans fyrir meistaraflokk, Sverrir skoraði í 2:1 sigri á Gróttu á Seltjarnarnesi í Lengjudeildinni í fyrrahaust.
Magnamaðurinn Oddgeir Logi Gíslason, sem varð fyrir því óláni að slasast snemma leiks. lagður af stað á sjúkrahús. Hann og einn leikmanna Þórs börðust um boltann, takkar undir skóm Oddgeirs virtust festast í gervigrasinu – eins og því miður virðist algengt á slíku undirlagi – og óttast var að krossband í hné hefði slitnað. Mynd: Ármann Hinrik


Raunfærnimat er öflugt tæki

Gefum von og söfnum rauðum fjöðrum í vængi vonarinnar

Að bregðast ungu fólki í viðkvæmri stöðu

Fé án hirðis
