Fara í efni
Umræðan

Með fjöreggið í höndunum

Ég er alin upp í Laufási við Eyjafjörð, þeim fagra sögustað. Foreldrar mínir tóku við staðnum þegar ég var þriggja ára gömul, til að sinna trúarlífi nágranna og sögu staðarins. Þá höfðu þeim fæðst tvö börn og það þriðja á leiðinni. Þetta var uppúr miðri síðustu öld. Foreldrar mínir tóku uppeldi alvarlega, ég var orðin læs fimm ára gömul og ekki þótti ástæða til annars en að ég hæfi skólagöngu þá. Í Laufási er gamall torfbær og þegar ég varð sex ára byrjaði ég að vísa ferðamönnum um bæinn og til undirbúnings var faðir minn búinn að upplýsa mig um sögu staðarins og þá ræðu hafði ég yfir ferðamönnunum. Mér var líka uppálagt að vera kurteis og sýna öllum virðingu. Ég tók því svo hátíðlega að ég bauð öllum sem sóttu staðinn heim í kaffi til foreldra minna. Það kvað svo rammt að, að foreldrar mínir urðu að taka mig á eintal til að útskýra fyrir mér að þau gætu varla sinnt þeim störfum sem þeim var uppálagt ef ég ætlaðist til að þau sinntu öllum ferðamönnunum. Ég lærði samskipti heima hjá mér vegna þess að á þessum tíma voru skólar fyrst og fremst fræðslustofnanir.
 
Síðan er liðin meira en hálf öld. Þegar ég var rúmlega tvítug, búin að fara til Noregs eins og íslenskum víkingum hefur jafnan sæmt og gat ekki ákveðið hvað ég vildi læra þá ákvað faðir minn að ég lærði til kennara. Á þeim tíma höfðu kennarar hærri laun en prestar og þar með betri lífsafkomu. Mögulega sá hann líka eitthvað í fari mínu sem ég sá ekki sjálf. Hann sannfærði mig um að kennaranámið væri afar gagnlegt og að ég gæti allt eins starfað við ýmislegt annað en kennslu. Ég hafði í raun engan áhuga því skólaganga mín einkenndist af einelti og því upplifun af skólum frekar neikvæð. En í gegnum námið fór ég og lífið hagaði því þannig til að eftir nám fór ég að kenna. Til að segja langa sögu stutta þá hef ég núna kennt í 36 ár og ef ég hef ætlað að beygja af leið til að prófa aðra hluti þá hendir lífið mér aftur á þennan stað. Ég er farin að sætta mig við að þetta sé minn staður, mitt hlutverk. Ég hef ákveðið að bera virðingu fyrir því.
 
Á þessum langa tíma hefur margt breyst og þá helst samfélagið. Ég hef þurft að ganga í gegnum mitt starf jafnhliða þeim breytingum enda er ég orðin rík af reynslu. Á þessum tíma hefur hlutverk skóla aukist að umfangi. Skólar eru ekki lengur fræðslustofnanir heldur að auki uppeldisstofnanir. Mörg börn verja mun meiri tíma með kennurum sínum en foreldrum.
 
Þegar við berum börn í þennan heim verðum við að átta okkur á því að við höldum á fjöreggjum í höndunum. Við berum ábyrgð á lífi og velferð annarra. En það eru ekki bara foreldrar sem þurfa að átta sig á þessari ábyrgð heldur líka kennarar, þeir bera ábyrgð á velferð barna annars fólks. Þetta er stórt og viðamikið hlutverk sem snýst ekki bara um lestrarkennslu eða að læra margföldunartöfluna. Kennarar sinna margþættri fræðslu og þurfa stöðugt að fylgjast með samfélagsbreytingum og afla sér þekkingar á öllu mögulegu og ómögulegu. Þeir verða að vera snjallir í samskiptum, vel tengdir tilfinningalega, þekkja allar nútíma greiningar út og inn til að geta mætt hverju og einu barni í þroska þess, sjá hæfileika hvers og eins til að geta beint fjöreggjunum á réttar brautir annars mjög flókins nútíma. Þeir þurfa líka að vera afar snjallir í samskiptum við foreldra til að ná fram því besta. Allir foreldrar vilja það besta fyrir börnin sín og þess vegna hljóta allir foreldrar líka að vilja að skóli bjóði upp á það besta.
 
Allir þrá trygga afkomu og ekki síst á Íslandi þar sem aðstæður eru í raun góðar. Það er umhugsunarefni að fólk fari í gegnum kennaranám en kjósi samt að starfa við annað. Það segir okkur að námið sé enn það sem faðir minn taldi mér trú um, að kennarar geti starfað við margt annað. En af hverju skila nýir kennarar sér ekki inn í skólana og af hverju þarf að manna skólana með ófaglærðu fólki? Ég er ekkert endilega viss um að mig myndi langa til að leita til læknis sem væri ófaglærður!
 
Á þessum 36 árum sem ég hef sinnt mínu starfi hef ég farið í gegnum fimm verkföll. Þau urðu ekki til annars en að ég þurfti að spýta í lófana til að vinna upp tap, þau urðu til þess að ég missti réttindi í starfi og hafa að auki fært mér lélegri afkomu til langs tíma, en það sem öllu máli skiptir og er verst er að starfið mitt nýtur ekki þeirrar virðingar sem það ætti að njóta. Sem þýðir líka að fjöreggin okkar, sem eru börnin, njóta ekki þeirrar virðingar sem þau eiga skilið! Fjöreggin eru lífæðin okkar, fólkið sem tekur við okkar hlutverkum síðar til að láta samfélagið ganga upp, og við verðum að vanda til verka! Við getum ekki verið svo upptekin af okkur sjálfum að samfélagið verði aukaatriði vegna þess að við erum og verðum alltaf hluti af heild. Við gerum ekkert ein og sjálf. Palli var ekki einn í heiminum, þegar allt kom til alls, og honum leið alls ekki vel þannig!
 
Það rættist þannig úr að starfið mitt er lífæðin mín, jafnvel þótt ég hafi unnið gríðarlegt sjálfboðaliðastarf í gegnum áratugi. Ég elska að vera með börnum og unglingum og fræða vegna þess að ég tengist mínum nemendum sterkt tilfinningalega, þau verða börnin mín og ég fylgist með þeim alla tíð, samgleðst og samhryggist í lífsins ólgusjó. Ég hef kosið í tímans rás að verða sá kennari! Starf er starf en þegar starf manns snýst um annað fólk og velferð þess þá er maður aldrei laus undan starfinu, það ferðast með manni hvert sem maður fer.
 
Fjöregg íslenskrar þjóðar snýst um hvernig næstu kynslóðum reiðir af og við verðum að vanda það hvernig við skilum af okkur, þar hvílir ábyrgðin. Á öllum þessum forsendum kalla ég eftir því að kennarastarfinu sé sýnd sú virðing sem það á skilið og að starfið sé metið launalega til jafns á við önnur störf sem krefjast ámóta menntunnar, einmitt núna þegar samningar hafa verið lausir í nokkra mánuði og það ekki í fyrsta sinn. Íslenskir kennarar standa með fjöreggið í höndunum!
 

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50