Mynd sem Hafdís G. Pálsdóttir tók, ein þeirra sem hengd hefur verið upp í verslun Pennans. Hver sem er getur svo tekið hana að Akureyrarvöku lokinni.
Margt skemmtilegt er á döfinni á Akureyrarvöku um komandi helgi. Meðal þeirra sem leggja hönd á plóg eru ÁLFkonur – Áhugaljósmyndarafélag fyrir konur – sem halda sýningu á myndum frá Akureyri í samvinnu við Akureyrarbæ og verslun Pennans/Eymundssonar í miðbænum.
Myndirnar hafa þegar verið hengdar upp í versluninni og í tilkynningu frá ÁLFkonum kemur fram að þær séu í afmælisskapi og bjóði því gestum og gangandi að þiggja myndirnar að gjöf þegar sýningu er lokið. Akureyrarvöku lýkur á sunnudag þannig að eftir að verslunin verður opnuð á mánudag geta áhugasamir komið þar við og náð sér í mynd – tekið mynd og farið með heim.