Fara í efni
Umræðan

Geirþrúðarhagi – hver var Geirþrúður?

SÖFNIN OKKAR – XLVII

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Gatan Geirþrúðarhagi í Hagahverfi á Akureyri heitir eftir Geirþrúði (Gertrud) Tyrrestrup en hún bjó á Stóra Eyrarlandi með manni sínum árin 1829-1846 og síðan áfram eftir að hún var orðin ekkja allt til 1861.

Geirþrúður fæddist á Reykjarfirði á Ströndum 1805. Foreldrar hennar voru danskir. Faðir hennar var beikir og rak verslun og sjávarútveg í Reykjarfirði en 1815 var fjölskyldan komin til Akureyrar.

Þegar Geirþrúður var 24 ára giftist hún Magnúsi Thorarensen (1804-1846) en hann var sonur Stefáns Þórarinssonar amtmanns á Möðruvöllum og Ragnheiðar konu hans.

Geirþrúður og Magnús eignuðust fjögur börn og bjuggu á Stóra-Eyrarlandi, sem Magnús fékk í arf eftir foreldra sína. Þegar Magnús lést erfði Geirþrúður stórbýlið og nokkuð af eignum í lausum aurum. Hún erfði einnig foreldra sína nokkru síðar og seinna meir systur sína, Anne Mette. Eyrarlandsmaddaman, eins og Geirþrúður var stundum kölluð, var sennilega ríkust íslenskra kvenna um sína daga.

En það er til lítils gagns að eiga fullt af peningum ef maður getur ekki ráðstafað þeim að vild sinni. Réttarstaða ekkna var á þessum tíma sú að þær máttu hafa nokkuð með fjármál sín að gera en þurftu að hafa tilsjónarmann, sem fylgdist með fjárútlátum ekkjunnar. Eyðslusemi Geirþrúðar og sala hennar á Oddeyri urðu til þess að hún var svift fjárforræði í maí 1856. Það voru tengdasonur hennar og mágur sem voru forgöngumenn þess að til gjörningins kom og líklega voru það áhyggjur af arfafé sem ráku þá áfram.

Geirþrúður var ekki bara eyðuslukló, hún lét illa að stjórn. Hún átti í hneykslanlegu sambandi við giftan mann og þegar upp kom lekandi á Akureyri, sem rakinn var til Stóra-Eyrarlands, lét hún sér fátt um finnast og hélt dansleik þrátt fyrir öll bönn.

Seinna játaðist hún bláfátækum kaupmannssyni Jóhanni Jakob Mohr. Árið 1859 var hann sendur hreppaflutningi frá Kaupmannhöfn heim í sína fæðingarsveit þ.e. Hrafnagilshrepp. Eftir heimkomuna tókust ástir með honum og Geirþrúði og konunglegt hjónavígslubréf var keypt. Þeim var samt synjað um giftinguna enda neitaði fjárhaldsmaður Geirþrúðar að samþykkja ráðahaginn og var þeim skipað að slíta sambandinu með formlegum dómi. Geirþrúður sinnti því ekki.

Tengdasonurinn kvartaði enn yfir eyðslusemi Geirþrúðar og svo fór að lokum að í árslok 1861 flutti hún frá Eyrarlandi niður á Akureyri. Úr þessu þurftu erfingjarnir ekki lengi að hafa áhyggjur af arfafé sínu því Geirþrúður gekk ekki heil til skógar og lést í október 1864, eftir áralanga rúmlegu. Banamein hennar var brjóstveiki og rýrnunarsótt, sem líklega hefur verið sullarveiki eða berklar.

Flest bendir til þess að Geirþrúður hafi ekki gengið verulega á höfuðstólinn með eyðslusemi sinni og erfingjarnir fengið verulega fjármuni eftir hennar dag en dánarbú hennar var aldrei tekið til opinberra skipta.

Af kirkjutröppum og kammerráði

Gísli Sigurgeirsson skrifar
31. október 2024 | kl. 17:00

Flokkur fólksins er fyrir þig

Sigurjón Þórðarson skrifar
31. október 2024 | kl. 13:00

Mjög skiljanleg umræða um EES

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. október 2024 | kl. 18:30

Hvalveiðar og geirfuglinn

Aðalsteinn Árnason skrifar
28. október 2024 | kl. 10:00

Vinnuvikan stytt en álag á nemendur aukið

Karl Liljendal Hólmgeirsson skrifar
27. október 2024 | kl. 16:00

Kennarar kjósa frekar mannúð en úlfúð

Hlín Bolladóttir skrifar
24. október 2024 | kl. 20:45