Eru búsetuóskir Íslendinga að breytast?
Allir á Akureyri vita líklega hver staðan er á fasteignamarkaðnum. Feykilegar hækkanir og allt selst á fyrsta degi, í helmingi tilfella á yfirverði segir fasteignasali. Hvað er að gerast? Og hvernig verða næstu misseri? Lítum á tvær kenningar:
Fyrri: Hækkandi fasteignaverð á Akureyri er eingöngu vegna skorts á húsnæði á Íslandi almennt, sama hækkun er um allt land.
Seinni: Það er einhver breyting að eiga sér stað í samfélaginu. 200.000 íbúa borgin hefur haft yfirburði í búsetuvali síðustu áratugi en það er nú að breytast, bilið að minnka og vísbendingar um mjög aukna sókn í að eiga heima í stórum bæ/smáborg.
Ef fyrri kenningin er rétt munu hlutföll milli húsnæðisverðs mismunandi staða halda sér, fólksfjölgun áfram verða yfir meðallagi í 200þ íbúa borginni (hbs) en undir meðallagi víðast annarsstaðar.
Ef seinni kenningin er rétt þá er fasteignaverð í stærri bæjum að draga á verðið á hbs og hlutfallsleg mannfjölgun eykst í stærri bæjunum en sígur á hbs.
Hvort af þessu er að gerast? Það er ekki einhlítt. Mannfjölgun á Akureyri hefur verið undir landsmeðaltali en var yfir landsmeðaltali á síðasta ári. Á Selfossi hefur mannfjölgunin verið langt yfir meðaltali í mörg ár. Í Reykjanesbæ hefur mannfjölgun verið að einhverju leyti í takti við flugstarfsemi. Ég hef ekki skoðað þróun fasteignaverðs nýlega til að dæma um hvort fasteignaverð í stærri bæjum sé að draga á hbs.
Hvor kenningin er rétt þarf því nánari skoðun. Tilfinningin segir mér þó að eitthvað sé að breytast. Líklegt sé að seinni kenningin sé rétt. Íslenska smáborgin er í öllu falli að verða til. Ef það er svo þá þýðir það auðvitað tækifæri fyrir Akureyri. Við gætum verið að fara frá 100-300 manna fjölgun á ári í 300-600 árlega fjölgun. Eða viljum við það ekki? Spennandi tímar eru framundan.
Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskólann á Akureyri. Greinin var upphaflega birt sem færsla á feisbúkkhópnum Akureyrarborg.