Ályktun Geðhjálpar vegna breytinga á þjónustu

Ályktun stjórnar landssamtakanna Geðhjálpar vegna breytinga á geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á þjónustu við börn og ungmenni sem eru að glíma við geðrænar áskoranir á Norður- og Austurlandi. Tilkynnt hefur verið að þjónusta, sem barna- og unglingageðteymi hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri, muni færast til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þann 1. október nk. Undanfarin ár hefur því miður verið dregið úr geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á landsbyggðinni og það þrátt fyrir verulegan vöxt í bráðatilfellum og vaxandi vanda hjá börnum.
Í frétt þann 3. júlí sl. á RÚV kom fram hjá framkvæmdastjóra mannauðssviðs Sjúkrahússins á Akureyri að þetta sé gert til að auka samfellu í þjónustunni. Fagfólk og aðstandendur eru þessu ekki sammála enda er verið að slíta í sundur starf sem hefur verið í þróun á Akureyri frá því að eini barnageðlæknirinn í föstu starfi við sjúkrahúsið lét þar af störfum fyrir 10 árum.
Það eru vísbendingar um að geðheilsu barna og ungmenna fari hrakandi og ekki síst í kjölfar COVID. Gögn frá landlækni (m.a. lyfjatalnabrunnur), gögn frá Rannsóknum og greiningu og fjölgun bráðatilfella (gögn frá BUGL) staðfesta þetta. Stjórnvöld, ríkið og sveitarstjórnarstigið, hafa sofnað á verðinum. Við sem samfélag höfum það einnig. Við verðum að efla þjónustu í nærumhverfi og alls ekki draga úr henni eins og þessi aðgerð því miður mun hafa í för með sér. Í nútímasamfélagi á grunnþjónustan að vera í nærumhverfi fólks – frá forvörnum til þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar skorar á stjórnvöld að hugsa um heildarmyndina þegar sendar eru sparnaðarkröfur á heilbrigðisstofnanir í kringum landið. Skipulagsbreytingar, sem hafa í för með sér samdrátt í þjónustu, auka ekki samfellu í þjónustu og það þjónar engum að halda slíku fram. Það þarf að stórefla forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu í nærsamfélagi og þar verða bæði sveitarfélög og ríkið að ákveða að setja verkefnið í algjöran forgang. Á jafn fjölmennu svæði og Norðausturland er verður að vera til staðar öflug annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og ungmenni. Flutningur þjónustunnar frá SAk á heilsugæslu er ekki skref í rétta átt og virðist einungis snúast um sparnað.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar


Töfrar tónlistar

Verði stórveldi með eigin her

Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019
