Fara í efni
Umræðan

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Undirritaður sótti á dögunum fína kynningu á skipulagshugmyndum Tjaldsvæðisreitsins - ásamt verulegum fjölda eldra fólks.

Líst vel á að setja amk. 200 íbúðir niður í byggð sem ekki verður hærri en 4 hæðir, - mundi þó lækka húsin með Hrafnagilsstrætinu og snúa engum húsum þvert á megináttir.

Hins vegar tel ég fráleitt að troða áformaðri heilsugæslustöð á planið gengt hótelinu - - þar ætti þvert á móti að rísa ca 40 íbúða fjölbýli með sér-bílskýli - sérstaklega sniðið að eldri borgurum sem veigra sér við lengra göngulagi á bílastæði í sameiginlegum kjallara.

Við værum þá að sjá kannski 240 íbúðir verða til - með mjög takmörkuðum bílastæðum í almennu rými ofan-jarðar.

Sem langtímaíbúi í Vanabyggð og fastagestur í Sundlaug Akureyrar þá leyfi ég mér að fullyrða að SA-áttin er ekki slæm vindátt á þessu túni - það eru hins vegar áttir af SV og NV sem blásið geta vel yfir 12 m/sekundu með skafrenningi til leiðinda þarna eins og landið liggur.

Frábær hugmynd að tryggja þægilega leið gangandi í gegn um hverfið - - um leið og gert er ráð fyrir að útisvæði milli húsa séu sameiginleg. Það er hins vegar bókstaflega röng-hugmynd að tala um „almenningsgarð“ - þar sem er svæði milli húsa - - - þetta verða að vera svæði íbúanna sem þarna búa og nóg að bjóða gegnumferðir gangandi almennings velkomnar að húshliðum.

Miðað við reynslu af vinnubrögðum bæjaryfirvalda og framgöngu frekustu verktakanna þá má telja nær óhugsandi að þessi skipulagshugmynd nái að þroskast og raungerast - ef verktökunum verður hleypt af stað með bita og bita og stök hús eða reiti - - sem þeir fá að breyta að geðþótta. Hverfið verður að þróa og fullbyggja sem eina heild – þar sem grunnhugmyndinni og heildasvip verður fylgt eftir allt til afhendingar fullfrágenginna eigna. Það er ekki þar með sagt að eitt verktakafyrirtæki verði eða þurfi að vera eini framkvæmdaraðilinn - - enda það fátíðara að stærri verk séu unnin af einum aðila. Smærri verktakar og iðnaðarmenn/iðnaðarmannahópar hljóta að geta boðið í verkþætti og unnið hvernig sem stærri einingum kynni að vera ráðstafað.

Hverjir eiga að fá að búa á reitnum?

Gamall (og lönguhættur skólastjóri) heldur því fram að nauðsynlegt sé að gefa ungum fjölskyldum tiltekinn forgang að þessum reit - - um leið og tryggð verður örugg skólaleið þennan spöl að Brekkuskóla og Sundlaug og Íþróttahúsi. Þar verður að taka tillit til þess að ungu fólki er ekki greið leið í dýrar séreignaríbúðir - og þess vegna verður að bjóða upp á hagkvæmar íbúðir í leigu og búseturétti í forgang fyrir barnafjölskyldur.

Á sama hátt er fyrrverandi skólastjóri og nú eftirlaunamaður með það á hreinu að veruleg eftirspurn eldri borgara er eftir íbúðum á svæðinu. Með vísan til þess að hópurinn yfir 60 ára er gríðarlega misjafnlega settur eigna- og tekjulega er óhjákvæmilegt að bjóða upp á íbúðir í forgang fyrir alla hópa; íbúðir í séreign (fullfjármagnaðar)fyrir þá betur settu og íbúðir með búseturéttarhluta 10-50% og leiguíbúðir sem ekki eru eingöngu bundnar við lægsta tekjuhópinn. Mikilvægt er að íbúðir sem njóta forgangs fyrir eldri borgara verði undantekningalaust byggðar á vegum óhagnaðardrifinna félaga – og komi ekki til með að verða að gróðalind eða notaðar í braskleigu fyrir eigendur sem kannski sitja allt annars staðar. Reynsla af byggingum á vegum Félags Aldraðra í Reykjavík - eða Hrafnistu og sjálfseignarfélaga - gefa ákveðið fordæmi sem vissulega má byggja á - - og einnig eru húsnæðissamvinnufélögin Búmenn, Búfesti og Búseti í Reykjavík - með tiltekinn grunn sem nýta má sem farveg til að byggja og reka íbúðir í þágu eldri borgara - - þannig að tryggt verði að hagræðið skili sér áfram til næstu aldurshópa inn í framtíðinni.

Það er ekki skortur á lúxusíbúðum fyrir frítímanotkun eða leigubrask hér á Akureyri árið 2023. Miklu heldur er afar brýnt að stemma stigu við því að efnafólk kaupi upp íbúðir og taki þær úr reglubundinni lögheimilsnýtingu - - á gráum leigumarkaði fyrir ferðamenn og sama gildir með orlofsíbúðakaup stéttarfélaganna á Höfuðborgarsvæðinu - það er aldeilis ótækt að heil fjölbýli séu lögð undir slíka starfsemi innan skipulags sem búið var til um heilsársbúsetu fjölskyldna og einstaklinga af ólíkum gerðum.

Að þessu sögðu þá er komið að meginefni minnar tillögu inn í skipulagsvinnu Akureyrarbæjar.

  1. Allar íbúðareiningar þurfa að koma til ráðstöfunar þannig að tryggt verði að íbúðirnar verði setnar af eigendum - í séreign og/eða íbúðafélagi neytendanna sjálfra.
    1. Setja má kvöð í lóðaskilmála þannig að byggingarfélög geti einungis selt nýjar eignir til einstaklinga sem ekki eiga aðra íbúð og flytja skulu lögheimili sitt í íbúðina. Framlengja má slíka kvöð tiltekinn árafjölda fram í tímann - - þannig að kvöðin sé bundin eigninni - en ekki eigandanum nema meðan viðkomandi situr.
  2. Íbúðafélög stéttarfélaga þurfa að fá forgang að byggingu leigu og búseturéttaríbúða – fyrir láglaunafólk í sínum röðum og þá með beinum stuðningi ríkis og sveitarfélags og líka fyrir almenna félagsmenn sína sem fengju þá úthlutað leigu eða búseturétti eftir málefnalegum leikreglum. Af kannski 80 íbúðum þar sem hugsanlega 30 þeirra væru bundnar forgangi láglaunafólks með börn og 50 íbúðir væru tiltækar fyrir barnafólk í meðaltekjuflokknum
  3. Af þessum mögulega 240 íbúðum væru 80 nettar íbúðir skilgreindar í forgang fyrir 60+ aldurshópinn og væru þær byggðar upp og ráðstafað í gegn um félag á vegum/með þáttöku eldri borgaranna sjálfra - sem blanda af séreignaríbúðum og leigu og búseturéttaríbúðum – með mismunandi hlutfalli búseturéttar – eftir vali einstaklinganna.
  4. C.a. þriðjungur allra íbúða - 80 væri þá byggður upp og seldur á almennum markaði - með þeim kvöðum þó að eigendur héldu lögheimili í íbúðinni og að öll leigustarfsemi verði óheimil alla framtíð.

Samantekt;

  • Fjölgum íbúðum á reitnum með því að flytja heilsugæslustöð út af svæðinu og yfir á sjúkrahúsnándina
  • Skiptum íbúðum milli fjölskylduíbúða á vegum stéttarfélaga (80) og forgang fyrir 60+ (80) og almennan markað setinna íbúða (80).
  • Ljúkum þróun og uppbyggingu svæðisins sem einnar heildar - þannig að stofnað verði þróunarfélag á vegum Akureyrarbæjar í samstarfi við stéttarfélögin og félög eldri borgara og íbúðafélög í almannaþágu, sem heldur utan um verkefnið og skilar markmiðum þess og lokafrágangi innan hóflegs tíma.

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður og fyrrverandi skólastjóri á Brekkunni

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00