Fara í efni
Pistlar

„Verðum að taka alvöru umræðu um hvalveiðar“

Birkir Hreinsson, til vinstri, og Guðmundur Þ. Jónsson skipstjórar á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11. Myndir af vef Samherja

Birkir Hreinsson og Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjórar á uppsjávarskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, sem báðir eru með áratuga reynslu af uppsjávarveiðum, segja ekki hægt að horfa framhjá því að hvalir éti óhemju mikið magn af loðnu. Það bitni vitaskuld á stærð loðnustofnsins.

Loðnan er næst mikilvægasta fiskitegundin sem Ísland flytur út á eftir þorski en Hafrannsóknarstofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar fiskveiðiárið 2024 til 2025. Stofnunin mun reyndar endurskoða ráðgjöfina þegar niðurstöður mælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í janúar.

Hvölum hefur fjölgað gríðarlega, segja skipstjórarnir. „Þegar skip eru að hífa inn troll eru oft á tíðum tugir hvala við veiðarfærin sem segir sína sögu,“ segir Birkir Hreinsson.

Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið; Landsbankinn benti á í vikunni að hófleg eða meðalstór loðnuvertíð geti aukið hagvöxt á næsta ári um hálft til eitt prósentustig og þeir Guðmundur og Birkir binda vonir við að mælingar á stofninum í janúar verði jákvæðari og veiðar leyfðar í kjölfarið.

Mælingar í haust sýndu að stofninn er nálægt þeirri stærð sem þurfi til að Hafrannsóknarstofnun gæti gefið grænt ljós á upphafskvóta, segir í umfjöllun um málið á vef Samherja.

Loðnuát hvala hefur á áhrif stofninn

„Þetta er náttúrulega ekki góð staða. Áður hafði verið sagt að umhverfisáhrif væru um margt jákvæðari. Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að hvalir éta óhemju mikið magn af loðnu, sem auðvitað bitnar á stærð loðnustofnsins, það segir sig nokk sjálft. Alþingi ákvað hins vegar að friða hvali að mestu, þannig að stofnanirnar fá að stækka og dafna í friði og við sjáum afleiðingarnar. Það má hins vegar varla tala upphátt um að heimila nauðsynlegar hvalveiðar, þá verður allt vitlaust í ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Ég held að allir skipstjórar séu á sama máli, hvölum hefur fjölgað gríðarlega og eru síður en svo í útrýmingarhættu. Vissulega er fæðukeðjan í hafinu flókin, mér skilst að langreyður geti étið um eitt tonn af loðnu á sólarhring og hnúfubakur hálft tonn,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson á vef Samherja.

Tugir hvala við skipin

„Hérna áður fyrr þóttu það tíðindi ef sást til hvala en staðan í dag er allt önnur,“ segir Birkir Hreinsson í greininni. „Ég taldi rúmlega tuttugu hvali á siglingu inn Eyjafjörðinn um daginn. Þegar skip eru að hífa inn troll eru oft á tíðum tugir hvala við veiðarfærin sem segir sína sögu. Loðnuveiðibann hefur ekki aðeins áhrif á útgerðirnar og sjómenn uppsjávarskipanna. Mörg byggðarlög reiða sig á loðnuna, ekki síst á austanverðu landinu og í Vestmannaeyjum. Við erum að tala um svo stórar tölur að þær hafa áhrif á hagvöxt alls þjóðarbúsins. Þess vegna verðum við að taka alvöru umræðu um hvalveiðar, stofnarnir hafa stækkað hratt á undanförnum árum og líklega aðrir farnir að láta undan,“ segir Birkir.

Skipstjórar sjá loðnutorfur

Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja tekur í sama streng. Hann bindur vonir við að frekari mælingar síðar í vetur sýni að loðnustofninn sé nógu stór til að heimila veiðar.

„Sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina talað fyrir því að efla hafrannsóknir. Allur togaraflotinn er mjög vel tækjum búinn. Skipstjórarnir sem ég er í sambandi við senda mér oft á tíðum myndir sem sýna glögglega hvar loðnutorfur eru, utan hefðbundinna leiðarlína rannsóknarskipa,“ segir hann.

„Skipstjórarnir sjá sem sagt töluvert af loðnu á öðrum svæðum en ‏þeim sem ekki falla undir fyrir fram ákveðnar leitarlínur hafrannsóknarskipanna. Loðnan er torfufiskur og það ‏getur verið okkur d‎‎ýrt að hitta ekki á að mæla torfurnar, sem gætu hugsanlega verið undirstöður vertíðar. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á rannsóknir, heldur að benda á að allur togaraflotinn er gríðarlega vel tækjum búinn og við eigum hiklaust að nýta okkur allar þær upplýsingar sem hægt er að safna saman,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson.

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45