Fara í efni
Pistlar

Vegna umfjöllunar um Grundargötu 6

Eitt það allra skemmtilegasta við það hugðarmál mitt, að kanna og skrásetja sögu eldri húsa er, að það má alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt, sem kannski kollvarpar því sem áður var talið eða stendur í heimildum. Þó heimildir styðji við það sem haldið er á lofti, geta þær brugðist og oft ber ólíkum heimildum ekki saman. Stundum koma „nýjar" upplýsingar um eitthvað sem gerðist fyrir meira en 100 árum. Almennt miða ég við regluna „hafa ber það sem sannara reynist" og svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þær heimildir sem taldar eru öruggar geta reynst rangar. En því fer fjarri að ég geti varpað allri ábyrgð á heimildirnar, því ég er aldeilis ekki óskeikull sjálfur og oft hafa ýmsar „rósir" ratað hingað inn, sem aðeins skrifast á ónákvæmni eða fljótfærni hjá mér.

Síðdegis sl. föstudag, fékk undirritaður áhugavert símtal frá Þorsteini Jónassyni. Erindi hans var upprunasaga Grundargötu 6, en pistill undirritaðs hafði þá birst á vefnum. Þorsteinn er langafabarns Jóns Jónatanssonar sem búsettur var í húsinu á fyrsta áratug 20. aldar og gerði þá athugasemd, að hvorki hann né nokkur innan hans ættar hefði heyrt á það minnst, að Jón hefði búið þarna, hvað þá byggt húsið. Hann vissi heldur ekki til þess, að langafi hans hefði nokkurn tíma verið járnsmiður. Manntöl frá þessum tíma sýna þó með óyggjandi hætti, að Jón Jónatansson og Guðrún Sesselja Jónsdóttur bjuggu þarna ásamt börnum sínum Kristjáni (bakara) og Sigurborgu. Það gæti hent sig, að fjölskyldan hefði búið þarna án þess að nefna það síðar við afkomendur sína. En Þorsteinn taldi nánast útilokað, að langafi hans hefði byggt húsið, án þess að nokkurn tíma væri á það minnst innan fjölskyldunnar. Stórfjölskyldan var um áratugaskeið búsett að Strandgötu 37, steinsnar frá Grundargötu 6, svo einhvern tíma hlyti það að hafa borist í tal, hefði ættfaðirinn byggt það hús.

Við nánari skoðun mína á gögnum frá Bygginganefnd kom enda eitt í ljós: Á þessum tíma voru búsettir í bænum tveir menn með nafninu Jón Jónatansson. Annar var tómthúsmaður, síðar póstur, og var fæddur 1850 en hinn var járnsmiður, fæddur 1874. Sá síðarnefndi var löngum búsettur í Glerárgötu 3. Ef skoðuð eru gögn Bygginganefndar, sést nokkuð glögglega í „registrum“ að sami Jón Jónatansson virðist hafa fengið byggingaleyfi í Grundargötu árið 1903 og leyfi til byggingar smiðju í Glerárgötu 3 árið 1919. Þar er í báðum tilvikum um að ræða Jón Jónatansson járnsmið. Í stuttu máli: Jón Jónatansson járnsmiður hefur að öllum líkindum reist Grundargötu 6 árið 1903, en alnafni hans, Jón Jónatansson póstur flutt inn í húsið nýbyggt og búið þar ásamt fjölskyldu sinni. Er þessu hér með komið á framfæri.

Þorsteini Jónassyni þakka ég kærlega fyrir ánægjulegt símtal og vek athygli á því, að allar athugasemdir og ábendingar við pistlana eru þegnar með þökkum.

Að ofan: Úr yfirliti (registrum) fundargerðabókar Bygginganefndar fyrir árin 1902-21. Um er að ræða skjáskot af vefsvæði Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu. Það verður vart annað lesið úr þessu, en að sami Jón Jónatansson hafi fengið húsgrunninn við Grundargötu og fengið að byggja smiðju við Glerárgötu. Sá Jón var járnsmiður og var búsettur í Glerárgötu 3. Það er hins vegar annar Jón Jónatansson sem skráður er til heimilis að Grundargötu 6 á árunum 1903-12. Virkar næsta ótrúlegt, en rétt að nefna, að það var ekkert einsdæmi, að einn fengi byggingarleyfi en annar flytti inn í húsið eða lyki við bygginguna. Og þá gat auðvitað allt eins verið um alnafna að ræða eins og aðra.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30