Fara í efni
Pistlar

Útlönd

Árið 1991 vorum við fyrrverandi konan mín bæði búin að taka BA prófin okkar, nýgift og með til þess að gera nýfæddan son, á vissum krossgötum. Til dæmis var okkur bent á að fyrst að ég væri kominn með kennslufræðina og BA próf, þá gæti ég orðið kennari að ævistarfi, konan mín haldið áfram að vinna á Stöð2 og að þannig gætum við átt örugga framtíð. Við ákváðum frekar að fara í Meira nám, til Frakklands og undirbjuggum okkur til að fara utan með 9 mánaða gamlan son okkar. Ýmsum fannst þetta óskapleg vitleysa hjá okkur, sérstaklega að fara með barnið til útlanda, það væri svo hættulegt. Allir vissu nefnilega að ljóshærð börn væru hátt á óskalista barnaræningja sem væru á hverju strái í útlöndum. En við fórum samt og allt gekk að óskum. Það sem hefur síðan þá velkst aðeins um í hausnum á mér er þessi hugsun um útlönd sem virðist að einhverju leyti vera enn þá að þvælast fyrir fólki. Þessi hugsun að Ísland sé þessi öruggi staður en að öll hin löndin séu á einhvern hátt hættuleg. Íslenska lambakjötið best og íslenska vatnið, jú og íslenskar konur og að maður tali nú ekki um Gunnars remúlaði. Svo rammt kveður stundum að þessari hugsun að til dæmis var um stund íslensk fjölskylda í Montpellier, þar sem við bjuggum sem lét senda íslenskan Svala til Frakklands, vegna þess að einn krakkinn gat ekki drukkið franskan appelsínudjús. Frekar vildi hann sykrað bragðefnavatn frá Íslandi. Mér er fyrirmunað að skilja þennan molbúahátt. Á Íslandi borða ég mestmegnis íslenskan mat, kjöt og fisk (ekki þó lifur og nýru, nýrun vegna þess að ég borða ekki hlandsíur og lifur af samúðarástæðum) en ef ég er annarsstaðar þá geri ég mér far um að smakka sem flest af því sem er til boða. Sumt finnst mér gott, annað vont eins og gengur en sem fjölbreytilegastan mat og drykk vil ég endilega hafa á mínum borðum. Þessi skringilegi ótti við útlöndin er hugsanlega skiljanlegur þegar horft er á fréttatíma í sjónvarpi. Langflestar fréttir frá útlöndum eru af hörmungum. Sem er afskaplega þröngsýnt viðhorf og elur á óttanum við útlönd og hvað þá útlendinga. Það er nefnilega ótrúlega grunnt á rasistanum í Íslendingum. Fólk frá öðrum löndum hlýtur nefnilega að vera eins og fréttir af þeirra löndum segja til um. Ég hef iðulega verið spurður að því hvernig Frakkar séu, hvort þeir sú ekki voðalega hrokafullir og eitthvað þesslegt. Yfirleitt svara ég því til að ég þekki nokkra Frakka í einni lítilli borg í suðurhluta landsins og geti því miður ekki tjáð mig um skapferli allrar þjóðarinnar. Alhæfingar um þjóðir og fólk eru eiginlega svolítið heimskulegar. Svona eins og ef maður vogaði sér að segja að allir Íslendingar væru molbúar. Svo er auðvitað ekki en það er ríkt í mannskepnunni að alhæfa út frá því sem er áberandi, í fréttum eða samræðum. Til dæmis eru ekki allir múslimar hryðjuverkamenn og ekki allir Íslendingar sjálfstæðismenn. Ein birtingarmyndin af þessu öllu er óttinn við Evrópusambandið. Ein grýlan sem otað er að okkur er að ef við myndum ganga í Evrópusambandið þá myndum við missa yfirráðin yfir fiskinum „okkar.“ Sem Íslendingar eiga ekkert lengur. Fiskurinn er allur í höndum kvótakónga og dularfullrar peningamaskínu sem er mestmegnis í útlöndum. Auðvitað eigum við að vera löngu gengin í Evrópusambandið, en það er önnur umræða og stórhættuleg. Að lokum tvennt. Fyrir það fyrsta þá erum við líka útlendingar í augum annarra þjóða og ef alhæft yrði um Íslendinga út frá reynslu annarra þjóða af íslenskum túristum, yrði það ekkert sérstaklega fallegt. Annað, þegar strákarnir okkar vildu fá að fara fylgdarlaust í skólann í Frakklandi, þá viðurkenni ég að ég var það smitaður af þessu útlandahjali að ég sendi þá af stað eina, beið í sirka mínútu og elti þá alla leið eins og misheppnaður spæjari meðfram veggjum og kíkjandi fyrir horn. Svo hætti ég því.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00