Fara í efni
Pistlar

Uppbrot í sumarbyrjun

Hið kærkomna sumar er nú runnið upp eftir langan og dimman vetur hér norðan heiða. Skólunum lýkur nú hverjum af öðrum sem þýðir að unga fólkið okkar flykkist út í sumarið og flest hver á nýja vinnustaði, full eftirvæntingar um að öðlast dýrmæta reynslu af vinnumarkaðnum. Það er því afar mikilvægt að huga vel að því hvernig tekið er á móti ungu fólki sem fetar sín fyrstu spor á vinnumarkaði. Uppruni, aðstæður og bakgrunnur þeirra er auðvitað afar mismunandi en hér vil ég sérstaklega gera kynjajafnrétti að umræðuefni. Vinnuveitendur þurfa að vera meðvituð um að gefa öllum kynjum jöfn tækifæri í stað þess að ala á gamaldags og rótgrónum staðalmyndum um áhugasvið og getu kynjanna. Ísland státar af því að vera best/skást í heimi þegar kemur að jafnrétti og er árangri okkar þegar kemur að kynjajafnrétti mikið haldið á lofti og ýmislegt bendir til þess að sú staða okkar sé að verða órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá höfum við einnig óbilandi trú á að allt verði betra þegar komandi kynslóðir taka við. Það er vissulega mikilvægt að hafa trú á að okkur yngra fólk hafi frjálslegra hugarfar en það er mikilvægt að gleyma því ekki að þau, líkt og við, verða ekki til í félagslegu tómarúmi og eru afsprengi þess samfélags sem þau alast upp í. Þau læra það sem fyrir þeim er haft og tileinka sér hugmyndir og viðhorf sem við lýði eru í samfélaginu.

Þrátt fyrir að við Íslendingar skorum hátt á alþjóðlegum mælingum á kynjajafnrétti þá er vinnumarkaðurinn hér á landi mjög kynskiptur, konur vinna gjarnan það sem við köllum hefðbundin kvennastörf og karlar hefðbundin karlastörf. Á þessu hafa verið þær undantekningar helstar að konur hafa í meira mæli verið að færa sig inn í stéttir sem áður voru í meirihluta skipaðar körlum en okkur hefur ekki gengið eins vel að brjóta múra í hefðbundnum kvennastéttum. Karlar eru mun líklegri en konur til að vera í stjórnunarstöðum og launamunur kynjanna er viðvarandi á íslenskum vinnumarkaði. Þessu væri eftirsóknarvert að breyta og löngu er orðið ljóst að það gerist ekki að sjálfu sér. Vinnuveitendur hafa þannig kjörið tækifæri til að koma að slíkum breytingum til dæmis með því að leggja sig fram við að taka vel á móti sumarstarfsfólki og gefa því fjölbreytt tækifæri. Það er afskaplega úrelt að setja stelpurnar í þrif og strákana í viðhald en því miður er það staðreynd víða. Karlafyrirtæki ráða stráka í sumarvinnu og kvennavinnustaðir stelpur. Meira að segja vinnuskólinn á vegum Akureyrarbæjar fellur í þessa gryfju. Dóttir mín vann á vegum Akureyrarbæjar í Kjarnaskógi síðasta sumar, þar voru stelpurnar látnar sjá alfarið um þrif á almenningssalernunum á meðan strákarnir voru í stígagerð. Afskaplega úrelt en líka mjög mótandi vinnulag og auk þess alls ekki í anda jafnréttistefnu bæjarins. Við höfum svo ótal mörg tækifæri til að gera betur þegar kemur að jafnrétti á vinnumarkaði hér á landi og það er ekki bara á ábyrgð hins opinbera að brjóta upp staðalmyndir og stuðla að breytingum heldur skiptir atvinnulífið þar miklu máli. Það er alltaf mikilvægt að velta upp eigin hugmyndum og viðhorfum, hvar erum við föst í viðjum vanans og hvar eru tækifæri til breytinga. Vinnuveitendur skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að jafnrétti og því að brjóta upp kynbundnar hugmyndir um vinnumarkaðinn. Ég hvet öll þau sem eru með mannaforráð að velta fyrir sér stöðunni á ykkar vinnustöðum, hvar er tækifæri til breytinga og hvernig má taka skref í átt að meira jafnrétti og gefa fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði „óhefðbundin“ tækifæri. Sumarbyrjun er tilvalin tími til slíks uppbrots á gömlum venjum.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00