Þvoglumæltur öldungur
Sum okkar verða þvoglumæltari með aldrinum. Kannski við séum þá búin að segja sömu orðin svo oft að okkur finnist ekki taka því að bera fram hvert atkvæði skýrt og greinilega, eins og tungumálakennarar. Vissulega þurfa ekki allir að tala eins og Gunnar heitinn Eyjólfsson, sem þjálfaði framburð heilla kynslóða leikara og annarra sem höfðu atvinnu af því að tala í fjölmiðlum og fjölmenni. Á þeim bænum var alveg gulltryggt að öll blæbrigði orðanna fengju að njóta sín. En kannski finnst sumum slík framsaga svolítið yfirdrifin – fólk hljóti að skilja orð sem það hefur heyrt þúsund sinnum áður þó þau séu ekki stöfuð ofan í það.
Um önnur okkar gildir hið gagnstæða. Þau þroskast frá því að vera dæmigerðir unglingar, hraðmæltir, óskýrmæltir og hræddir við að skera sig úr, yfir í fullorðið fólk með sjálfsöryggi og yfirvegun þeirra sem vita sig hafa eitthvað að segja sem er þess virði að heyrist skýrt og greinilega.
Svo eru líka alls kyns ástæður, ótengdar aldri, fyrir því að fólk er misjafnlega skýrmælt. Íslenskan er ekki auðveldasta tungumálið fyrir talfærin. Það fólk má telja sig lánsamt sem aldrei á í vandræðum með framburð, svipað og þau eru lánsöm sem allt leikur í höndunum á, eða hafa góða íþróttahæfileika. Sum okkar hafa íslensku líka sem annað mál og hafa ríka hagsmuni af því að fá að tjá sig eftir bestu getu án þess að vera sífellt dæmd fyrir villur. Slík dómharka jafngildir þöggun og hér verðum við öll að temja okkur umburðarlyndi.
Ríkisútvarpið fagnar um þessar mundir afmæli sínu. Þessi níræði öldungur er ótvírætt ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar, sannkölluð gersemi í þjóðareigu. Útvarpið hefur haft langvinn áhrif á vitund fólks fyrir íslensku máli, ekki síst hinu talaða orði, og tekið ábyrgð á þessum áhrifum með því að hafa í starfsliði sínu sérstakan málfarsráðunaut. Þegar ég hlusta á RÚV, sem er býsna oft, finn ég mig ganga að því vísu að framburður sé skýr og „lýtalaus“, hvað sem það nú merkir. Þetta á alveg sérstaklega við um fréttalestur, sem hefur einhvern sérstakan sess í huga mér að þessu leyti. Oftast verð ég ekki fyrir vonbrigðum.
Upp á síðkastið hefur mér þó hvað eftir annað fundist Ríkisútvarpið bregðast þessum skrýtnu væntingum mínum. Ég hrekk við þegar „ódæðismaðurinn“ heitir í fréttunum „odaasmaarin“, „Norðfirði“ verður „norrfiri“ og þar fram eftir götunum. Mig hryllir við eins og einhver hafi dregið neglurnar eftir krítartöflu. Gunnar Eyjólfsson hlýtur að snúa sér marga hringi í gröfinni. Athygli mín færist af innihaldi fréttanna yfir á framburðinn. Ég finn fyrir pirringi og á erfitt með að hrista hann af mér.
Þessi vanlíðan er auðvitað fyrst og fremst mitt vandamál. Fyrsti kennarinn minn í barnaskóla var skáldkona af aldamótakynslóð. Hún raðaði okkur upp við vegg og lét okkur fara með rómantísk ættjarðarljóð og veifaði handleggjunum eins og hljómsveitarstjóri til að við hefðum réttan hrynjanda, en skammaði þá sem höfðu það sem hún kallaði „sjónvarpsþuluframburð.“ Þetta var fyrir næstum hálfri öld. Niðurstaðan er sú að ég hlýt að vera farinn að eldast.
Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri