Fara í efni
Pistlar

Takmörkuð gæði í geðheimum Akureyrar

Sá sem lendir í kulnun, sálarkreppu, áföllum eða á við langvarandi geðraskanir að stríða kemst fljótlega að því að fullt af úrræðum eru í boði: Heimilislæknar, geðlæknar, sálfræðingar, geðdeild, göngudeild geðdeildar, geðheilsuteymi HSN, VIRK. Alls ekki slæmt fyrir bæ sem ekki er stærri en þetta.

Segjum sem svo að þú, lesandi góður, takir upp á því á morgun að sturlast, klikkast, brjálast, fyllast örvæntingu, geta ekki meira, sjá svart, kvíða öllu, vilja ekki lifa þá er samt nokkuð líklegt að utan frá séð lítirðu bara sæmilega út. Það er allavega býsna ólíklegt að þú verðir fluttur í snarhasti upp á sjúkrahús.

Vonandi geturðu treyst einhverjum fyrir líðan þinni; vonandi er sá hinn sami úrræðagóður. Það er líklegt að þér þyki erfitt að viðurkenna vandann gagnvart fjölskyldu, vinum og vinnufélögum en þú herðir þig upp og leggur spilin á borðið og það er þungu fargi af þér létt – í bili – því þú veist ekki hvað bíður þín. Þú munt halda að fyrst þú tókst þetta stóra skref munu allskyns dyr opnast; við búum nú í velferðarsamfélagi. En það sem bíður þín er – bið.

Áður en lengra er haldið er vert að benda á mikilvægi þess að búa sig vel undir sálarkreppu, sturlun, geðveiki o.s.frv. Það er mikilvægt að búa yfir mikilli orku og vera vel á sig kominn andlega og líkamlega, vertu viss um að eiga digra sjóði og sérlega öflugt tengslanet. Af hverju? Kann einhver að spyrja.

Af því að öll þessi úrræði; heimilislæknar, geðlæknar, geðdeild, sálfræðingar, göngudeild geðdeildar, geðheilsuteymi HSN eru TAKMÖRKUÐ GÆÐI.

Heimilislæknar eru of fáir, geðlæknar eru annað hvort farnir, hættir eða með varnarmúra í kringum sig (enda við það að bugast af of miklu álagi), örfáir komast að á göngudeild geðdeildar, örfáir komast að hjá geðheilsuteymi HSN, sálfræðiþjónusta er einfaldlega orðin of dýr fyrir flesta (20-23 þúsund tíminn), geðdeildin er að nafninu til bráðadeild en þangað fer fólk í allskyns ástandi (oft á tíðum eina leiðin til að hitta geðlækni).

Það er óásættanlegt að bíða þurfi mánuðum saman eftir að komast að hjá geðlækni.

Það er óásættanlegt að fleiri komist ekki að á göngudeild SAk eða í geðheilsuteymi HSN.

Það er óásættanlegt að þurfa að greiða sálfræðikostnað (sem getur hlaupið á hundruðum þúsunda) úr eigin vasa.

Nú síðast barst sú fregn að það standi til að loka dagþjónustu göngudeildar geðdeildar í sex vikur í sumar. Það er óásættanlegt að draga úr þjónustu á sumrin.

Að nafninu til er legudeildin opin á sumrin en þar er þjónustan skert og lítið við að vera. Og við þetta má bæta að legudeildin hefur verið í óhentugu bráðabirgðahúsnæði í áratugi.

Stjórn Grófarinnar harmar stöðuna í geðheilbrigðismálum á Akureyri og hvetur hlutaðeigandi til að gera málaflokknum hærra undir höfði. Enn eimir eftir af gömlum fordómum gagnvart fólki með geðraskanir og einhvern veginn þykir ásættanlegt að sá hópur bíði bara stilltur þangað til og ef röðin kemur að þeim.

Vandinn er kerfislægur og alls ekki við starfsfólk geðheilbrigðiskerfisins að sakast.

Að lokum skal bent á að Grófin – Geðrækt er opin öllum sem vilja stuðning á jafningjagrundvelli.

Grófin Geðrækt | Akureyri (grofinak.is)

Fyrir hönd stjórnar Grófarinnar,

Arnar Már Arngrímsson

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00