Fara í efni
Pistlar

Stöndum saman

Það eru allir búnir að fá sig fullsadda af þessari „bévítans veiru“ eins og Kári Stefánsson kallaði hana í fyrstu bylgjunni. Hún hefur legið eins og mara yfir þjóðfélaginu og heimsbyggðinni nánast allt þetta ár. Við munum varla lífið án hennar. Vonandi tekst okkur að losna við hana sem fyrst og getum þá um frjálst höfuð strokið. En fyrst er að halda út.

Veiran hefur dregið fram styrkleika hjá einstaklingum, þjóðfélögum og alþjóðastofnunum en líka afhjúpað ýmsa bresti. Þar sem ójöfnuður ríkir hefur hún bitnað harðast á þeim sem standa höllum fæti. Þar sem vantraust ríkir tileinkar almenningur sér ekki upplýsingar eða almenn ráð til að verjast henni. Þar sem örbirgð ríkir er ekki hægt að nota þessi ráð. Þar sem óeining ríkir bendir hver á annan sem sökudólg. Þar sem glæpir eru stundaðir notfæra menn sér veiruótta til að ræna fólk og svindla. Þar sem alræði ríkir er boðum og bönnum beitt óháð frjálslyndum lýðræðisgildum á borð við ferðafrelsi, atvinnufrelsi, skoðanafrelsi og málfrelsi.

Hér á landi hafa styrkleikar samfélagsins komið skýrt fram. Heilbrigðiskerfið og starfsfólk þess hefur sýnt einstaka fagmennsku og árangur, þótt hér hafi einnig afhjúpast veikleikar í aðstöðu og húsakosti á Landakoti. Lykilstofnanir hafa unnið saman eins og vel smurð vél, verið í góðum tengslum við almenning og brugðist við spurningum, ábendingum og gagnrýni jafn óðum og slíkt hefur komið fram. Hér ber hæst embætti sóttvarnarlæknis, landlæknis og almannavarna, sem hver hefur sitt hlutverk samkvæmt lögum sem við höfum borið gæfu til að samþykkja. Ekki má heldur gleyma að það verður á grundvelli vísindanna sem sigur vinnst. Hér á landi njóta þau sem betur fer almenns trausts.

Efasemdir og gagnrýni á samfélagslegar aðgerðir til sóttvarna hafa komið fram eins og vera ber í frjálsu samfélagi. Rökstudd gagnrýni hefur haft áhrif á viðhorf og viðmið, leiðbeiningar og reglur. Því miður hefur því líka verið hent inn í þjóðfélagsumræðuna að „enginn viti“ hver fórnarkostnaðurinn sé og hann sé „eflaust mjög mikill“. Þetta eru að sjálfsögðu ekki rök gegn sóttvarnaraðgerðum heldur innantóm auglýsing eftir slíkum rökum. Þótt veiruþreytan sé bugandi eigum við ekki að falla fyrir slíku.

Viðbrögð Íslendinga við faraldrinum hafa einkennst af borgaravitund og samstöðu. Fólk gætir að eigin ábyrgð og stendur með þeim sem skaðast af faraldrinum. Byrðunum er misskipt. Verst er hlutskipti þeirra sem hafa þurft að gjalda fyrir með lífinu eða missa nákomna úr sjúkdómnum. Þess vegna er brýnast að samfélagið beiti kröftum sínum – og almannavaldinu eftir því sem við á – til að forða sem flestum frá þessu ömurlega hlutskipti. Næstverst er hlutskipti þeirra sem veikjast og glíma við eftirköst veikindanna mánuðum saman, ásamt óvissu um hvernig muni ganga að ná fullri heilsu. Við eigum öll að leggjast á eitt til að þessi hópur verði sem allra fámennastur. Til að svo megi verða er óhjákvæmilegt að hluti þjóðarinnar missi tekjumöguleika þar til hamförunum lýkur. Þess vegna eigum við líka að sameinast um að þeir sem verða fyrir tekjumissi fái það bætt og að mannsæmandi viðurværi allra sé tryggt.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00